Eldvörnum verður kippt í lag

Bjarni Kjartansson (f.m.) sviðsstjóri forvarnarsviðs slökkviliðsins fór ásamt slökkviliðsmönnum til …
Bjarni Kjartansson (f.m.) sviðsstjóri forvarnarsviðs slökkviliðsins fór ásamt slökkviliðsmönnum til að loka húsnæðinu í gær. Ómar Óskarsson

Eigandi iðnaðarhúsnæðis á Nýbýlavegi sem leigt hefur verið út sem íbúðarhúsnæði hefur lofað að gera úrbætur í brunavörnum og mun slökkvilið höfuðborgarsvæðisins taka það út á fimmtudag. Til stóð að loka húsnæðinu í gær og bera íbúana út en nú lítur út fyrir að málið fái farsælan endi.

Slökkviliðsmenn mættu í húsnæðið á Nýbýlavegi 4 í Kópavogi í gær í þeim tilgangi að loka húsnæðinu. Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir hafði eigandi húsnæðisins, fasteignafélagið Lundur, ekki lokið úrbótum á brunavörnum. Fallið var frá lokuninni eftir að slökkvilið og eigandi komust að samkomulagi um að ræða framhaldið í fyrramálið.

„Við ákváðum að bakka með þetta í gær vegna þess að aðstæður voru meiri og flóknari en við höfðum upplýsingar um, bæði fjöldi gesta og ástand þeirra. Lokun er örþrifaráð og við sáum möguleika eftir samtöl við eigendur og forráðamenn á að það væri mögulegt að leysa þetta með hraði. Það verður gert í dag og á morgun og húsnæðið verður tekið út af okkur á fimmtudag. Ég sé þá ekki annað en að það sé farsæl lausn fyrst það er hægt að klára málið þannig. Það leysir ekki neitt að fólk sé á götunni,“ segir Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri forvarnarsviðs slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

Snyrtilegt og fínt fyrir utan eldvarnir

Ástand húsnæðisins var fyrst kannað í september eftir að slökkviliðinu höfðu borist ábendingar um að búið væri í því. Bjarni segir að brunavarnakerfi hafi vantað og brunahólfanir hafi alls ekki verið í lagi. Varað hafi verið við því að húsnæðinu yrði lokað ef ekki yrði brugðist við. Þegar allt of langur tími hafi verið liðinn frá upphafi málsins hafi verið ákveðið að grípa til aðgerða.

Alla jafna segir Bjarni að jafnan sé búið í um 200 iðnaðarhúsum á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að það sé ekki heimilt. Það gerist hins vegar ekki oft að slökkviliðið þurfi að grípa til aðgerða eins og lokana vegna ástands þeirra. Yfirleitt ráðist eigendur strax í bráðaúrbætur til að koma sér hjá svo grófri aðgerð. Skipulagsyfirvöld geti gefið leyfi fyrir gistihúsarekstri en þarna hafi fólk búið fastri búsetu.

Eigandi hússins á Nýbýlavegi ætlar nú að setja upp brunaviðvörunarkerfi og brunahólfa hæðina sem búið er á frá stigahúsi til að eldur og reykur berist ekki þangað ef eldur kemur upp annars staðar í húsnæðinu. Bjarni segir að þrátt fyrir allt hafi húsnæðið á Nýbýlaveginum verið með snyrtilegri slíkum stöðum sem hann hafi séð.

„Bæði voru stór og rúmgóð herbergi, mjög vel frá gengið og fínt, nema eldvarnir,“ segir hann.

Fyrri frétt mbl.is: Íbúar fengu misvísandi skilaboð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert