„Það er dýrvitlaust veður“

Mjög slæmt veður er nú á Ísafirði og víðar á …
Mjög slæmt veður er nú á Ísafirði og víðar á Vestfjörðum. Ljósmynd/Bæjarins besta/Sigurjón

„Það er dýrvitlaust veður og við biðjum fólk að halda sig heima ef það mögulega getur,“ segir Ingvar Jakobsson hjá lögreglunni á Ísafirði. Súðavíkurhlíð verður lokuð frá kl. 17 vegna snjóflóðahættu. Vegurinn verður lokaður þar til annað verður auglýst.

„Það er alveg óhætt að segja að það sé orðið hvasst,“ segir Heiðar Hermannsson, yfirhafnarvörður í Bolungarvíkurhöfn. Spáð er 28 m/sek vindhraða í Bolungarvík kl. 15 og 35 m/sek um kl. 17. Þessu fylgir snjókoma og er starfsfólk hafnarinnar í viðbragðsstöðu.

Heiðar segir að farið sé að hvessa en logn var í morgun. „Maður sá bara bakkana koma inn. Það var alveg orðið vitlaust veður úti í hafi,“ segir hann en bátarnir eru allir við bryggju. „Það fer enginn á sjó í dag.“

„Við erum í viðbragðsstöðu ef eitthvað kemur upp á. Það er ekkert sem hægt er að gera. Við erum búin að gera það sem við getum,“ segir Heiðar. Bátar hafa verið færðir til á bryggju þannig að fari betur um þá. Þá mun starfsfólkið einnig standa vaktina fram eftir degi.  

„Það er alveg kafsnjór núna, við sjáum ekki neitt,“ segir Heiðar.

Aftakaveður með glórulausum byl

Varað er við aftakaveðri með glórulausum byl sem horfur eru á að skelli á á norðanverðum Vestfjörðum um kl. 14-15 og standa mun fram undir kvöld.

Veðurhæð verður óvenjumikil í öllum skilningi og vindur norðanstæður. Lagast um tíma snemma í kvöld, en upp úr kl. 21 verður aftur N og NA 20-25 m/s á Vestfjarðakjálkanum og eins við Breiðafjörð með stórhríðarveðri og sama sem engu skyggni.

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum og almannavarnanefndin á norðanverðum Vestfjörðum hefur ákveðið að loka veginum milli Ísafjarðar og Súðavíkur klukkan 17 í dag vegna aðstæðna og veðurspár á Vestfjörðum.

Samkvæmt veðurspá mun veðrið ganga niður um hádegið á morgun og gert er ráð fyrir að vegurinn verði opnaður í kjölfarið.

Þessi mynd var tekin á Ísafirði í dag. Eins og …
Þessi mynd var tekin á Ísafirði í dag. Eins og sjá má er skyggni lítið. Ljósmynd/Bæjarins besta/Sigurjón
Óveðurbakki siglir inn Ísafjarðardjúp. Aðeins hálftíma eftir að myndirnar voru …
Óveðurbakki siglir inn Ísafjarðardjúp. Aðeins hálftíma eftir að myndirnar voru teknar var óveðrið skollið á á Ísafirði. Ljósmynd/Jón Ottó Gunnarsson/Veðurstofan
Hér má sjá að nokkuð hvasst á að vera í …
Hér má sjá að nokkuð hvasst á að vera í Bolungarvík kl. 17 í dag. Af vef Veðurstofu Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert