„Vilji allra að leysa málið“

„Við erum sammála mikilvægi þess að hefja gjaldtöku og að það þurfi að tryggja fjármagnið en við viljum hins vegar fara aðra leið hvað varðar gjaldtökuþáttinn,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), í samtali við mbl.is.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði fram og kynnti í gær frumvarp ríkisstjórnarinnar um náttúrupassa. Hún sagði í samtali við mbl.is að hún væri opin fyrir breytingum á frumvarpinu enda væri það hlutverk þingsins að fara yfir mál sem lögð væru fram á því og gera þau betri.

SAF lýsti því yfir á dögunum að samtökin vildu frekar fara þá leið að hækka svokallaðan gistináttaskatt. Helga segir að frumvarpið fái nú þinglega meðferð á Alþingi og verði tekið til skoðunar þar og SAF muni taka þátt í þeirri umræðu.

„Það eru hagsmunir allra að það finnist farsæl lausn og ég vil trúa því að hún verði fundin. Það er vilji allra að leysa málið og koma uppbyggingunni í ákveðinn farveg.“

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert