Segir orð fjármálaráðherra hafa valdið tjóni

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Árni Sæberg

Eftir að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hélt því fram á Alþingi í vikunni að læknar kölluðu eftir margra tuga prósenta launahækkun og gaf í skyn að kröfur þeirra væru ósanngjarnar hefur mikill titringur ríkt í læknastéttinni. Þetta segir Gunnar Ingi Gunnarsson, yfirlæknir í heilsugæslunni í Árbæ.

Ráðherra velti því upp hvort það væri sann­gjörn krafa að meðallækn­ir, sem væri með um 1,1 millj­ón króna á mánuði í heild­ar­laun og yf­ir­lækn­ir með rúm­ar 1,3 millj­ón­ir, fengi til viðbót­ar ein meðal­mánaðarlaun fólks í land­inu. „Þetta hefur farið alveg rosalega illa í fólk,“ segir Gunnar.

Sagði upp starfinu vegna ummælanna

Gunnar segist nú þegar hafa orðið fyrir tjóni vegna þessa, en einn af læknunum á heilsugæslunni hefur ákveðið að fara erlendis eftir áramót í nokkra mánuði. „Það þarf ekki meira til, og ég hef velt því fyrir mér hvort ráðamenn geri sér grein fyrir því hvað þetta er ofsalega viðkvæmt og hvað það þarf lítið af óheppilegum setningum á röngum tíma til að eyðileggja mikið. “

Þá segist hann þurfa að auglýsa eftir staðgengli, en enginn hefur sótt um auglýstar stöður í heilsugæslu árum saman. „Það er mjög óheppilegt þegar það er annars vegar verið að segja ósatt, eins og að læknar fari fram á 50% kauphækkun, og hins vegar þegar verið er að koma með umræðu um starfskjörin á þessum nótum. Þetta ergir fólk og veldur því að teknar eru ákvarðanir sem valda okkur tjóni.“

Laun lækna ekki jafnhá og ráðherra hélt fram

Gunnar bendir á launatöflu lækna, sem finna má á vefsíðu Læknafélags Íslands, og segir almenn laun lækna ekki næstum jafn há og orð ráðherra gaf í skyn. „Stærstur hópur lækna er frekar illa launaður eins og kemur fram í launatöflunni. Hún sýnir laun sem læknar fá almennt, en auðvitað breytir það launum sumra þegar þeir taka kvöld- og helgarvaktir,“ segir hann. „En það eru grunnlaunin sem þarf að lagfæra.“

Þá segir hann lækna hafa dregist verulega aftur úr mörgum stéttum þegar komi að launum. „Það var einu sinni þannig að læknar á Íslandi voru með sömu laun og stjórnendur fyrirtækja, en sá viðmiðunarhópur er horfinn úr augsýn,“ segir hann. „Þetta er uppsafnaður vandi sem er orðinn það stór að krísan sem nú er uppi er afleiðing þess.“

Gunnar Ingi Gunnarsson yfirlæknir í heilsugæslunni í Árbæ skoðar einn …
Gunnar Ingi Gunnarsson yfirlæknir í heilsugæslunni í Árbæ skoðar einn skjólstæðing sinn. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert