Skilja ekki eldgosin

Ekkert lát er á eldgosinu í Holuhrauni. Þá halda jarðhæringarnar …
Ekkert lát er á eldgosinu í Holuhrauni. Þá halda jarðhæringarnar í Bárðarbungu sömuleiðis áfram. mbl.is/RAX

Danskur banki nefnir gos í Bárðarbungu sem mögulegan viðburð sem hefði hrikalegar afleiðingar fyrir Evrópu á næsta ári. Sagt hefur verið frá spá bankans í erlendum miðlum. Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir erlenda blaðamenn oft ekki skilja að öll eldgos þurfi ekki að leiða til hamfara.

Gos í Bárðarbungu er sagt geta valdið stórskaða í landbúnaði, breytt veðurfari og stuðlað að allt að tvöföldunar á verði korns, að því er kemur fram í frétt á vef breska blaðsins The Telegraph um spá danska bankans Saxo. Haft er eftir sérfræðingi hjá bankanum að eldgosið sem staðið hefur yfir í yfir hundrað daga á Íslandi gæti nú byrjað á mun ofsafengnara tímabil.

Vísað er til gossins í Eyjafjallajökli árið 2010 sem olli miklum röskunum á flugi og til gossins í Laka árið 1783. Áhrif síðarnefnda eldgossins á veðurfar og uppskeru á meginlandi Evrópu hafa verið nefnt sem ein af orsökum frönsku byltingarinnar.

„Þetta er svona dæmigerð frétt í útlensku blaði þar sem menn eru að reyna að gera hamfarafréttir úr gosfréttum á Íslandi. Blaðamennirnir skilja ekki almennilega að það þurfi ekki öll eldgos að vera einhverjar gríðarlegar hamfarir. Þetta er tekið frá bankastarfsmönnum sem eru að reyna að meta áhættu. Blaðamaður sem fer yfir umsögn bankamanns um eldgos, það lofar ekki góðu,“ segir Páll sem er prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

Alverstu hamfarirnar alltaf rifjaðar upp

Eldgos á Íslandi geta að sjálfsögðu haft alvarleg hnattræn áhrif og hafa gert það eins og Lakagígagosið sýnir, að sögn Páls. Engin ástæða sé hins vegar til að vera með slíkar hamfaraspár í hvert skipti sem gýs hér á landi.

„Hér gýs að meðaltali annað hvort ár. Við fengum gos sem var í sjálfu sér ekki stórt í Eyjafjallajökli árið 2010 sem hafði mikil áhrif. Svo kom annað miklu stærra gos ári seinna í Grímsvötnum. Það hafði lítil áhrif. Það fer eftir mjög mörgum atriðum hversu mikil áhrif gos á Íslandi hafa. Það er ekki bara stærð gosana og að það skuli gjósa. Þessi eldfjöll okkar gjósa mjög oft en oftast eru þetta litlir atburðir og hafa lítil áhrif út fyrir landsteinana,“ segir Páll.

Þá bendir hann á að menni rifji alltaf upp mestu hamfarir sem þekktar eru í þessu samhengi, Lakagígagosið í þessu tilfelli. Það sé hins vegar langversta gos sem vitað er um hér á landi.

„Þeir svíkjast ekkert um það þarna að vitna í það. Það er mikill munur á því gosi og því sem er næststærst. Þetta gos sem við upplifum núna er næststærsta hraungos síðan í Lakagígum. Það er núna ekki nema 1/10 af því gosi en er samt næststærsta hraungosið,“ segir Páll til að setja muninn í samhengi.

Bankinn hefur tilnefnt nokkra viðburði sem ólíklegt er að eigi sér stað en gætu haft geigvænleg áhrif á álfuna. Aðrir atburðir sem bankinn nefnir eru yfirvofandi súkkulaðiskortur í heiminum, greiðslufall rússneska ríkisins og stórsigur breska sjálfstæðisflokksins Ukip í bresku þingkosningunum á næsta ári.

Frétt The Telegraph af spá danska bankans um hamfaragos í Bárðarbungu

Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ.
Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert