Kraftaverk að hún lifði af

Inga var ökumaður rauða bílsins sem lítið er eftir af …
Inga var ökumaður rauða bílsins sem lítið er eftir af eftir slysið. Skjáskot af dr.dk

Birna Ágústsdóttir segir engan skilja hvernig dóttir hennar, Inga Rún Harðardóttir, slapp lifandi úr bílslysi þann 4. desember síðastliðinn á hraðbraut utan við Horsens í Danmörku.

Birna segir líðan Ingu vera eftir atvikum en hún er nú útskrifuð af spítala og komin til síns heima. „Hún braut fjóra hryggjarliði en þetta voru hrein brot og hún var heppinn að mænuna skaðaði ekki,“ segir Birna.

Í gær birti Inga skilaboð á Facebook þar sem hún þakkaði vinum og vandamönnum fyrir fallegar kveðjur. Sagðist hún hafa sloppið ótrúlega vel og tengdi frétt DR af slysinu við færsluna því til sönnunar þar sem sjá má það litla sem eftir er af bíl hennar.

„Það skilur það náttúrulega enginn að hún skuli hafa komist lifandi út úr bílnum. Það er ekkert eftir af honum, hann er gjörsamlega ónýtur,“ segir Birna.

Þrír létust og átta slösuðust

Þrír létust í slysinu, tvær ungar konur frá Vejle, 19 og 21 árs gamlar, og 54 ára karlmaður frá Esbjerg. 23 ára bílstjóri flutningabíls hefur verið kærður fyrir manndráp af gáleysi en samkvæmt DR tók hann ekki eftir því að umferðin hafði stöðvast og ók á fullri ferð aftan á kyrrstæðan bíl. Þar á eftir beygði hann yfir á næstu akrein og olli þar öðrum árekstri.

Auk þeirra sem létust slösuðust átta manns, þar af þrír alvarlega og var Inga ein þeirra. Birna segir það engu að síður kraftaverk miðað við ástand bílsins.

„Hún hefur bara haft einhverja verndarengla yfir sér, það er ekkert annað.“

Erfið vegferð fyrir höndum

Inga er í svokölluðu korsetti sem styður við bak hennar og bringu, auk þess sem hún er með kraga um hálsinn enda má hún ekkert beygja bakið næstu þrjá mánuði.

Þær mæðgur eru búsettar á Suður-Jótlandi en Inga hlaut aðhlynningu á spítalanum í Árósum þar til hún var útskrifuð síðastliðinn mánudag.

Nú er Inga komin heim til sambýlismanns síns og barna. Erfiðlega gengur hinsvegar að fá sjúkraupplýsingar hennar sendar á milli sveitarfélaga og því hefur hún ekki enn fengið þau hjálpargögn sem hún þarfnast inn á heimili sitt eða áfallahjálp.

Þó svo að mikil mildi sé að ekki hafi farið verr segir Birna ljóst að enn sé nokkuð erfið vegferð fyrir höndum til að tryggja fullan bata Ingu. Hún segir slíkt þó enga byrði miðað við það sem hefði getað orðið.

„Þetta er ekki neitt miðað við ef við ættum að jarðsetja hana.“

Frétt mbl.is: Íslensk kona slösuð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert