Björguðu átta Kínverjum

Björgunarsveitir hafa þurft að aðstoða fólk við að komast leiðar …
Björgunarsveitir hafa þurft að aðstoða fólk við að komast leiðar sinnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við erum búin að vera í mjög erfiðum málum í dag. Við björguðum til dæmis átta Kínverjum sem voru nýkomnir úr flugi. Við náðum að bjarga þeim úr bíl við illan leik, en þau voru komin langt útaf veginum. Farið var með þau út í björgunarsveitarhús þar sem var hlúð að þeim,“ segir Haraldur Haraldsson, formaður Björgunarsveitar Suðurnesja í samtali við mbl.is. 

Sveitin hefur verið að störfum við Reykjanesbraut í allan dag en fjölmargir bílar festust þar í dag vegna ófærðar.

„Við erum einnig í mjög góðu samstarfi við Brunavarnir Suðurnesja og störfum saman öxl í öxl í veðrum eins og þessu. Við höfum einnig verið að aðstoða þá í dag við sjúkraflutninga,“ segir Haraldur sem telur að veðrið sé að skána.

„Ég held að vindurinn sé núna að snúa sér, þetta er lognið á undan næsta stormi. En það er alveg hellirigning hérna núna sem á eftir að gera færðina mjög slæma í einhvern tíma. Þegar að snjórinn blotnar verður allt þungbærara,“ segir Haraldur sem telur þó ólíklegt að aftur þurfi að loka Reykjanesbrautinni. 

„Það er ennþá verið að bjarga fólki en það er seinni tíma vandamál að bjarga bílunum. Það verður ekki gert núna.“

Svona var færðin á Reykjanesbraut fyrr í dag.
Svona var færðin á Reykjanesbraut fyrr í dag. mbl.is/Andreas Boysen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert