Ljótt jólaskraut varð að vinsælu jólapeppi

Systurnar Hugrún Egla og Elínborg Una Einarsdætur
Systurnar Hugrún Egla og Elínborg Una Einarsdætur mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Þær eyða ómældum tíma á degi hverjum í að búa til myndband fyrir jóladagatalið Jólapepp sem birtist á YouTube og hefur fengið mikið áhorf. Þar kenna þær hvernig hægt er breyta venjulegum hlutum í jólalega hluti og skortir hvorki hugmyndaflug né húmor. Drasl í herbergi getur auðveldlega orðið að jólatré.

Þetta byrjaði allt á því að við vorum staddar í Blómavali í lok nóvember og þá fengum við hugmynd um að búa til ljótt jólaskraut. Okkur fannst að það gæti verið dálítið fyndið að gera alvarleg myndbönd um hvernig á að búa til ljótt jólaskraut,“ segja systurnar Hugrún Egla og Elínborg Una Einarsdætur, en þær hafa birt á YouTube og Facebook-síðum sínum eitt myndband á dag frá fyrsta desember undir yfirskriftinni Jólapepp. Þar hafa þær með sinni einstöku framsetningu kennt hvernig hægt er breyta venjulegum hlutum í jólalega hluti, til dæmis gera skartgripi úr Cheerios, breyta fjölskyldubíl í jólabíl, breyta venjulegum skóm í jólaskó og búa til jólapeysur með því að festa á þær jólamyndir af mjólkurfernum. „Ég fór í jólapeysunni minni í skólann og ég hef aldrei fengið eins mikið hrós fyrir fatnað,“ segir Elínborg og hlær.

„Okkur langaði bara til að gera eitthvað sem okkur finnst skemmtilegt og kemur okkur í jólastuð,“ segja þær og gangast við því að finnast jólin mjög skemmtileg, þó þær geri góðlátlegt grín að jólaundirbúningnum í myndböndunum.

Leituðu birtu ofan í baðkari

Þær segja engan skort á hugmyndum að efni fyrir jólapeppið, en þær hafa líka óskað eftir hugmyndum frá öðrum og ef þær hugmyndir eru góðar getur fólk fengið í verðlaun að fá að koma í þáttinn. „Tvær stelpur komu með hugmynd að því að búa til okkar eigið jólalag og þær komu í jólapeppið og gerðu lagið með okkur. Við tókum vinsælt ítalskt jólalag og settum textann í Google-translate og út úr því kom frekar fyndinn texti sem við breyttum svolítið. Síðan gerðum við myndband þar sem við sungum lagið og þetta var mikil vinna og eftirvinna, ég held að þetta hafi tekið um átta klukkutíma. Það tók líka rosalega langan tíma að gera jólatréð úr ruslinu í herberginu mínu, en þá vorum við líka með einn gest sem hjálpaði, hann Jói lagði okkur lið. Ég var að fara í próf daginn eftir, þannig að þetta var þó nokkuð stress,“ segir Hugrún sem er að vinna í jólafríinu sínu en hún er á fyrsta ári í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Elínborg er ekki enn komin í jólafrí í grunnskólanum svo þær nota þann litla tíma sem þær hafa til að gera jólapeppið. „Dagsbirtan er líka í svo stuttan tíma, við þurfum helst að nýta hana. Við þurftum tvisvar að fara ofan í baðkarið heima vegna birtuskorts.“

Frændsystkinin kröfuhörð

Við upptökurnar notast þær við venjulega stafræna myndvél og vinna svo efnið eftir á, klippa, setja tónlist og annað slíkt með forriti sem þær sóttu á netið. Þær hafa fengið miklu meiri viðbrögð við jólapeppinu en þær bjuggust við, sum myndböndin hafa verið skoðuð 250 sinnum. „Það er mjög ánægjulegt og eflir okkur til dáða. Litlu frændsystkini okkar eru mjög spennt og kröfuhörð, þau bíða á hverjum degi eftir því að við setjum inn jólapeppið og verða mjög svekkt ef við erum ekki búnar að setja myndböndin inn áður en þau fara að sofa á kvöldin. Svo hefur skólinn líka haft sérstaka stund þar sem bekkurinn horfir á jólapeppið,“ segir Elínborg.

Ætli RÚV hafi ekki samband?

En hvernig hefur samstarfið gengið við þessa sköpun, eru þær alltaf sammála um hvernig þetta á að vera?

„Við höfum ekki rifist nema einu sinni við gerð þessara myndbanda, en það var út af verkaskiptingu og hugmyndaleysi,“ segja þær systur sem eru fæddar sama dag með þriggja ára millibili, Hugrún er 16 ára en Elínborg 13 ára. En þær segjast þó ekki vera mjög líkar. „Við viljum ekki vera eins, en mörgum finnst við mjög líkar í skapi og reyndar erum við báðar ótrúlega þrjóskar. Foreldrum okkar finnst við samt mjög ólíkar manneskjur. En við höfum svipaðan húmor, annars gætum við sennilega ekki gert þessi myndbönd saman. Við höfum líka samið texta saman fyrir uppistand.“ Þær Hugrún og Elínborg ætla að endurtaka leikinn á næsta ári. „Þá erum við að hugsa um að hafa samband við RÚV um samstarf. Ætli RÚV hafi ekki frekar samband við okkur.“

Hugrún og Elínborg búa hér til myndband um kartöflu í …
Hugrún og Elínborg búa hér til myndband um kartöflu í skónum, mbl.is/Einar Falur Ingólfsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert