Ferðamenn efla hagkerfið og verslun

Hverasvæðin heilla ferðamenn.
Hverasvæðin heilla ferðamenn. mbl.is/Eggert

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna, eða 96%, er þeirrar skoðunar að ferðamenn efli hagkerfið og verslun í landinu. Auk þess eru langflestir á að ferðamenn efli þjónustuframboð en rúmur fimmtungur telur þó að ferðamenn takmarki aðgengi annarra að þjónustu. Þetta kemur fram í nýlegri viðhorfskönnun.

Félagsvísindastofnun Íslands kannaði viðhorft Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu, en hún var unnin fyrir Ferðamálastofu.

Svarendur voru beðnir um að taka afstöðu til fullyrðinga um áhrif ferðamanna á samfélag og náttúru.

Tæpur helmingur telur of fáa ferðamenn vera á landinu að vetri til

„Langflestir eru á því að ferðamenn efli hagkerfi (96%) og verslun í landinu (93%). Auk þess eru langflestir á að ferðamenn efli þjónustuframboð (90%) en rúmur fimmtungur telur þó að ferðamenn takmarki aðgengi annarra að þjónustu (22%). Langflestir eða 93% eru ennfremur á því að ferðamenn bæti við fjölbreytileika mannlífsins. Að mati 67% svarenda kenna ferðamenn okkur að meta eigið land og 61% eru á því að þeir stuðli að bættu aðgengi að náttúru landsins. Tæpur helmingur (47%) telur hins vegar að ferðamenn spilli náttúru landsins og 23% að þeir spilli upplifuninni af náttúru landsins. 

Um tveir af hverjum þremur eru á því að fjöldi ferðamanna sé hæfilegur að sumri, 29% að hann sé of mikill og 6% að hann sé of lítill. Tæplega helmingur er hins vegar á því að fjöldi ferðamanna að vetri til sé of lítill, tæplega helmingur að hann sé hæfilegur og 3% að hann sé of mikill. Fólk búsett í kraganum í kringum höfuðborgarsvæðið og á landsbyggðinni fremur en höfuðborgarbúar töldu að fjöldi ferðamanna væri of lítill á veturna,“ segir í tilkynningu á vef Ferðamálastofu. 

Þá kemur fram, að um sex af hverjum tíu (59%) sem svöruðu séu á því að uppbygging ferðaþjónustu sé of hæg miðað við fjölgun ferðamanna, 22% að hún sé í takt við fjölgun ferðamanna og 13% að hún sé of hröð. Fáir (5%) séu hins vegar á því að uppbyggingin sé mismikil eftir því hvaða landshluti á í hlut. Höfuðborgarbúar og þeir sem búa í Kraganum í kringum höfuðborgarsvæðið telji í meira mæli að uppbyggingin sé of hæg en þeir sem búa í öðrum landshlutum.

Þá segir, að nær allir telji ferðaþjónustu skipta máli. Nærri sjö af hverjum 10 (68%) telji ferðaþjónustu vera nokkuð mikilvæga í efnahagslífi landsins og tæplega þriðjungur hana vera undirstöðuatvinnuveg. Afar fáir (2%) telji hana hins vegar vera léttvæga eða skipta engu máli. Karlar telji mun frekar en konur að greinin sé undirstöðuatvinnugrein.

74% telja hið opinbera ekki hafa skýra framtíðarsýn

Þrír af hverjum fjórum (74%) telja að hið opinbera hafi ekki skýra framtíðarsýn fyrir íslenska ferðaþjónustu, 17% að hún sé til að hluta til en 9% eru á því að framtíðarsýnin sé skýr. Fleiri eru hins vegar á því að fyrirtækin í ferðaþjónustu hafi skýra framtíðarsýn (34%) eða hafi hana að hluta til (31%).

Athygli vekur að yngsti aldurshópurinn (18-29 ára) telur að hið opinbera hafi skýra framtíðarsýn í meira mæli en þeir sem eldri eru. 

Skiptar skoðanir eru hins vegar um það hvort ríkið eigi að efla landkynningu til að laða fleiri gesti til landsins. Um helmingur (49%) er því sammála að ríkið eigi að efla landkynningu, 43% er því ósammála og 8% hvorki sammála né ósammála.

Ferðamenn á Þingvöllum.
Ferðamenn á Þingvöllum. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert