Fjöldi ábendinga um fæðubótarefni

Fæðubótarefni eiga að hafa ýmsa virkni, að minnsta kosti ef …
Fæðubótarefni eiga að hafa ýmsa virkni, að minnsta kosti ef miðað er við auglýsingar. Af vef Matvælastofnunar

Vaxandi fjöldi ábendinga hefur borist Neytendastofu síðustu misseri vegna fæðubótarefna sem ekki virka eins og auglýst er. Samkvæmt lögum verða fyrirtæki að geta lagt fram gögn sem styðja fullyrðingar sem settar fram í auglýsingum um vörur sem þau selja.

Sagt hefur verið frá því hér á mbl.is síðustu tvo daga að krabbameinssjúklingum hér á landi hafi verið selt efnið salicinium sem meðferð við sjúkdómi þeirra. Prófessor og yfirlæknir krabbameinsdeildar Landspítalans segir efnið algert falslyf og embætti landslæknis hefur í kjölfarið varað fólk við margvíslegum gylliboðum um meðferðir þar sem vísindalegar rannsóknir hafi ekki sýnt fram á gagnsemi þeirra.

Að sögn Matthildar Sveinsdóttur, lögfræðings á neytendaréttarsviði Neytendastofu, veit hún ekki til þess að ábendingar hafi borist stofnunarinnar um salicinium. Hins vegar hafi töluverður fjöldi ábendinga borist síðustu misserin, aðallega um ýmis fæðubótarefni.

„Við höfum verið að fá mjög mikið af ábendingum upp á síðkastið sem við erum að halda utan um og stefnum á að fara í á nýju ári. Samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu þá þurfa fyrirtæki að geta sannað allar fullyrðingar sem koma fram í auglýsingum. Það má ekki veita villandi eða rangar upplýsingar. Ef það eru einhverjar staðhæfingar sem koma fram í auglýsingunum þá þurfa fyrirtækin að geta lagt fram einhverjar rannsóknir eða sannanir fyrir þeim,“ segir hún.

Lögin eru ekki takmörkuð við tilteknar vörur eða þjónustu. Því segir hún að ekki sé útilokað að Neytendastofa geti tekið á því ef fram koma upplýsingar um misvísandi eða rangar fullyrðingar um lyf. 

Fyrri fréttir mbl.is:

Féfletti krabbameinssjúkling

„Loddaraskapur af verstu gerð“

„Það er verið að plata fólk“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert