Framtíð Evrópustofu óljós

AFP

Engin áform eru uppi hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um að reka Evrópustofu, upplýsingamiðstöð sambandsins hér á landi, áfram eftir að samningur um rekstur hennar rennur út í sumar. Þetta kemur fram í svari frá framkvæmdastjórninni við fyrirspurn mbl.is.

„Núgildandi samningur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um rekstur upplýsinga- og samskiptaþjónustu á vegum sambandsins á Íslandi rennur út í ágúst 2015. Eins og staðan er í dag eru engin áform um að bjóða rekstur þeirrar þjónustu út á nýjan leik,“ segir Anca Paduraru, fjölmiðlafulltrúi stækkunardeildar framkvæmdastjórnarinnar.

Evrópustofa tók til starfa í upphafi árs 2012 eftir að rekstur hennar hafði verið boðinn út. Samið var við íslenska almannatengslafyrirtækið Athygli og þýska almannatengslafyrirtækið  Media Consulta um rekstur hennar. Samningurinn var til tveggja ára með fjárframlagi upp á allt að 1,4 milljónum evra. Samkvæmt samningnum var heimilt að framlengja hann til tveggja ára.

Sumarið 2013 var ákveðið að framlengja samninginn við Athygli og Media Consulta um ár í samræmi við ákvæði hans. Síðasta sumar sagði Athygli sig hins vegar frá rekstrinum og var öllu starfsfólki Evrópustofu sagt upp störfum. Media Consulta tók þá alfarið yfir rekstur Evrópustofu og réð fólk til starfa og hefur fyrirtækið séð alfarið um reksturinn síðan.

Samningurinn um rekstur Evrópustofu rennur út sem fyrr segir á næsta ári og er ekki mögulegt samkvæmt honum að framlengja hann frekar. Ekki er útilokað að tekin verði ákvörðun síðar um að halda rekstrinum áfram en þá yrði að bjóða verkið út á nýjan leik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert