Gunnar Bragi fundaði með Fabius

Gunnar Bragi Sveinsson ásamt Laurent Fabius.
Gunnar Bragi Sveinsson ásamt Laurent Fabius.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, áttu fund  í París í dag. Þar  ræddu ráðherrarnir tengsl ríkjanna á sviði menningarmála. viðskipta og ferðamennsku, fjölluðu um þróun á norðurslóðum, loftslagsmál, nýtingu jarðhita, samstarf á sviði öryggis- og varnarmála, auk þess að ræða þróun mála í Úkraínu og Mið-Austurlöndum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Þar kemur fram, að utanríkisráðherra segi ánægjulegt að finna þann hlýhug sem ríki í garð Íslands í Frakklandi og þann áhuga sem franskur almenningur sýni Íslandi og íslenskri menningu. „Franskir ferðamenn flykkjast til Íslands, íslenskar bókmenntir seljast sem aldrei fyrr í Frakklandi og þá þarf vart að nefna mikilvægi Frakklands fyrir íslenskan sjávarútveg. Við viljum hlúa að samskiptum ríkjanna, treysta böndin enn frekar og leita nýrra sóknarfæra,“ er haft eftir Gunnari Braga.

Þá segir, að ráðherrarnir hafi rætt niðurstöðu ríkjaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem er nýlokið í Perú. Utanríkisráðherra Frakklands mun leiða næstu ríkjaráðstefnu sem haldin verður í París að ári liðnu þar hann stýrir viðræðum um nýtt alþjóðlegt samkomulag í loftslagsmálum sem mun gilda frá árinu 2020. Ráðherrarnir ræddu meðal annars samstarfsmöguleika Íslands og Frakklands á sviði jarðhitanýtingar sem mikilvægt innlegg í aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Frönsk stjórnvöld hafa sett málefni norðurslóða á oddinn

Frönsk stjórnvöld hafa í vaxandi mæli sett málefni norðurslóða á oddinn og er gert ráð fyrir að vegvísir um áherslur í norðurslóðastarfi Frakklands verði kynntur á næsta ári. Gunnar Bragi segir framlag Frakklands til rannsókna og vísinda á norðurslóðum, meðal annars í samstarfi við íslenskar fræðistofnanir, vera mikils metið. Þá hafi Frakkar vilja til að tengjast enn frekar störfum Norðurskautsráðsins enda hafi ráðið styrkst mjög á umliðnum árum, meðal annars með gerð lagalega bindandi samninga um brýn hagsmunamál.  

Gunnar Bragi og Fabius ræddu stöðu mála í Úkraínu, Mið-Austurlöndum, samningaviðræður um kjarnorkuáætlun Írans og málefni Palestínu.  Þeir ræddu ennfremur yfirstandandi samningaviðræður um uppbyggingarsjóð EES. Gunnar Bragi sagði Evrópusambandið verða að slá af kröfum sínum um aukin framlög til sjóðsins.

Þá fjölluðu ráðherrarnir  um samstarf  Íslands og Frakklands í öryggis- og varnarmálum en Frakkar voru fyrsta bandalagsríki Atlantshafsbandalagsins sem tók þátt í loftrýmisgæslu á Íslandi árið 2008. Gunnar Bragi ræddi þau verkefni og skyldur sem íslensk stjórnvöld hafa tekist á hendur á undanförnum árum, meðal annars rekstur og viðhald ratsjárkerfisins, stjórnstöðvarinnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og annarra varnarmannvirkja og -búnaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert