Landlæknir varar við gylliboðum

mbl.is/Kristinn

Embætti landslæknis telur mikilvægt að sjúklingar vari sig á margvíslegum gylliboðum um meðferð þar sem vísindalegar rannsóknir hafi ekki sýnt fram á gagnsemi þeirra. Tekur það undir umfjöllun yfirlæknis krabbameinsdeildar um gervilyfið salicinium í frétt sem birtist á mbl.is í gær.

Í samtali við mbl.is í gær lýsti Helgi Sigurðsson, prófessor og yfirlæknir krabbameinsdeildar Landspítalans, því hvernig engar rannsóknir styddu þær fullyrðingar að efnið salicinium virki gegn krabbameini. Áður hafði mbl.is sagt frá því að íslenskur aðili hafi selt krabbameinssjúklingum hér á landi meðferð með efninu fyrir um 130.000 krónur á mánuði. Sölumaðurinn sendi jafnvel röntgenmyndir sjúklingsins til Bandaríkjanna þar sem hann sagði „fagaðila“ hafa ráðið það úr þeim að sjúklingurinn þyrfti að halda áfram að taka efnið, þrátt fyrir engan sjáanlegan árangur af því.

„Það er verið að hafa fólk að féþúfu með því að beita loddaraskap af verstu gerð. Menn þykjast hafa lykilupp­lýsingar um það sem er nýjasta nýtt í krabbameinsfræðum og búa til „lyf“ byggt á því sem er algert falslyf,“ sagði Helgi meðal annars við mbl.is.

Í tilkynningu á vef embættis landslæknis í dag kemur fram að embættið taki undir umfjöllun Helga sem birtist í frétt á mbl.is undir fyrirsögninni „Loddaraskapur af verstu gerð“.

„Landlæknir telur mikilvægt að sjúklingar vari sig á margvíslegum gylliboðum um meðferð þar sem vísindalegar rannsóknir hafa ekki sýnt fram á gagnsemi þeirra,“ segir í tilkynningunni.

Tilkynningin á vef embættis landlæknis

Fyrri frétt mbl.is: „Loddaraskapur af verstu gerð“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert