Líta málið alvarlegum augum

Vegagerð í Almenningum á Siglufjarðarvegi í júlí.
Vegagerð í Almenningum á Siglufjarðarvegi í júlí. Ljósmynd/ Sigurður Ægisson

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, segir þau viðskipti sem Vegagerð ríkisins hefur átt við einstaklinga og fyrirtæki sem tengjast starfsmönnunum hennar fjölskylduböndum litin alvarlegum augum. Fjallað var um málið í Kastljósinu í gær þar sem  Hreinn Har­alds­son  viður­kenn­di að starfs­menn hafi ekki starfað sam­kvæmt regl­um.

Í samtali við mbl.is segir Hreinn að hann hafi verið meðvitaður um fæst þeirra atriða sem til umfjöllunar voru í Kastljósinu áður en fyrirspurn frá þættinum barst. Kastljós hafði rannsakað þrjú dæmi um vafasöm viðskipti Vegagerðarinnar að undanförnu.

 Eitt dæmið snýr að hundraða millj­óna greiðslum til fyr­ir­tæk­is sem teng­ist fyrr­ver­andi starfs­manni. Annað dæmi snýr að viðskipta­samn­ingi Vega­gerðar­inn­ar við fyr­ir­tæki í eigu starfs­manns Vega­gerðar­inn­ar og eig­in­konu hans. Í þriðja til­vik­inu sé um að ræða viðskipti við fyr­ir­tæki sem er í eigu bróður starfs­manns Vega­gerðar­inn­ar. Fram kom, að viðskipt­in nemi hundruðum millj­óna en fóru fram án útboðs.

„Ég var ekki meðvitaður um þessi ræstingamál og þessi viðskipti við einn verktaka umfram aðra voru heldur ekki á mínu borði. Varðandi hreingerninarnar þá er þegar búið að veita viðkomandi starfsmanni formlega áminningu,“ segir Hreinn en slík áminning getur verið undanfari brottvikningar þó sú sé ekki alltaf raunin. Að auki segir Hreinn að samningurinn við ræstingafyrirtækið hafi verið felldur úr gildi.

„Hvað varðar innkaup á vörum og þjónustu bæði hjá verktökum og byrgjum þá er búið að setja af stað vinnu við að fara yfir hvernig má bæta og breyta verkferlum svo það sé alveg tryggt að það séu engir hagsmunaárekstrar í gangi og að ákvarðanir séu gegnsæjar,“ heldur hann áfram.

Hreinn segir málið litið alvarlegum augum innan Vegagerðarinnar og að hann efist ekki um að álit almennings á Vegagerðinni muni hljóta hnekki vegna málsins.

„Ég er hræddur um að það því miður að þetta gefi neikvæða sýn á okkar verkefni og að það dragi jafnvel úr trausti á okkur. En ég get ekki litið framhjá því að þarna eru hlutir sem eru ekki í lagi og þarf að bæta og þangað til við höfum gert það er eðlilegt að fólk sé með einhverja varnagla. En þá er bara að vinna það upp aftur.“

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert