Nýr flötur við eldri hugmynd í læknadeilunni

„Við lögðum fram nýjan flöt á eldri hugmynd á fundi í gær. Samninganefnd ríkisins ætlaði að kíkja á það og kemur kannski með einhver viðbrögð á morgun,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands en fundur í kjaradeilu þeirra fer fram hjá ríkissáttasemjara á morgun.

Í kvöldfréttum RÚV kom fram að forsætisráðherra, fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra boðuðu Gunnar Björnsson, formann samninganefndar ríkisins og Magnús Pétursson ríkissáttasemjara á fund  í dag til að ræða almennt um kjaramálin, þar á meðal læknadeiluna.

Þorbjörn segir það ánægjulegar fréttir. „Það ætti bara að vera góðs viti ef að oddvitar ríkisstjórnarinnar sjá ástæðu til að funda með formanni samninganefndar ríkisins og ríkissáttasemjara. Það er bara ánægjulegt.“

Aðspurður hvernig samninganefnd lækna fer inn í viðræðurnar á morgun segir Þorbjörn erfitt að meta það. „Við rennum svolítið blint í sjóinn með fundinn á morgun og ég á erfitt með að átta mig á hvað kemur út úr honum. En ég er almennt bjartsýnn.“

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert