Óvenju mikið jarðsig á Siglufjarðarvegi

Það er vetrarfærð um allt land.
Það er vetrarfærð um allt land. mbl.is/Golli

Vegna óvenju mikils jarðsigs á Siglufjarðarvegi eru vegfarendur beðnir að gæta ýtrustu varúðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Þá kemur fram, að búast meg við minniháttar töfum í Hvalfjarðargöngum í nótt frá kl. 00:30 og fram undir morgun vegna vinnu við vegbúnað.

Færð og aðstæður

Það er hálka og skafrenningur á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en hálkublettir eða hálka á Reykjanesbraut. Hálka er annars  á flestum öðrum leiðum á Suðurlandi.

Holtavörðuheiði er lokuð en hægt er að fara hjáleið um Laxárdalsheiði og Bröttubrekku. Hálka er á flestum leiðum á Vesturlandi en ófært á Fróðárheiði og þungfært yfir Heydal. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Svínadal.

Á Vestfjörðum snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og Ísafjarðardjúpi og víða éljagangur eða snjókoma.  Þæfingsfærð er milli Brjánslækjar og Kleifaheiðar en þar er hálka.  Snjóþekja er á Klettshálsi, Mikladal og Hálfdán.

Lokað er á Þverárfjalli en snjóþekja og snjókoma á flestum leiðum í Húnavatnssýslu.  Flughálka með stórhríð er frá Sauðárkróki að Hofsósi og í Hjaltadal.  Ófært er frá Hofsósi að Siglufirði en þungfært í Blönduhlíð.

Nú er búið að opna Öxnadalsheiði en þar er þæfingsfærð og skafrenningur og áfram unnið að útmokstri.  Hálka og skafrenningur er á Víkurskarði og á flestum vegum á Norðurlandi eystra en þæfingsfærð á Hólasandi.

Hálka er á Fagradal, Fjarðarheiði og Oddskarði og hálka eða snjóþekja á vel flestum vegum á Austur- og Suðausturlandi.  Flughálka og skafrenningur er á milli Víkur í Mýrdal og Steina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert