Segjast ekki hafa séð lokunina

Björgunarsveitir hafa þurft að koma mörgum til hjálpar að undanförnu. …
Björgunarsveitir hafa þurft að koma mörgum til hjálpar að undanförnu. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. mynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Átta íslenskir ferðamenn sem björgunarsveitin Súlur frá Akureyri kom til bjargar í nótt segjast ekki hafa komið auga á lokun Vegagerðarinnar þegar þau óku upp á Öxnadalsheiði úr Skagafirði um miðnætti í nótt.

Heiðinni var lokað um kvöldmatarleytið í gærkvöldi vegna ófærðar. Fólkið, sem ók tveimur bifreiðum, lenti í vandræðum í Bakkaselsbrekkunni á leið sinni niður af heiðinni.

Annar bíllinn sat fastur í skafli á veginum og hinn bíllinn komst ekki framhjá honum. Meðal farþega í öðrum bílnum var meðal annars þriggja ára gamalt barn.

Heiðinni var lokað í gærkvöldi

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni voru lokanir settar upp báðum megin við heiðina, meðal annars þar sem fólkið fór um upp á heiðina. Hlið er látið falla yfir hægri akrein vegarins og gefur það meðal annars til kynna að vegurinn sé lokaður.

Að sögn starfsmanns Vegagerðarinnar sem mbl.is ræddi við er vissulega mögulegt að ferðamennirnir hafi ekki komið auga á hliðið vegna slæms skyggnis eða að hliðið hafi hugsanlega verið fokið vegna veðurs.

Festu Range Roverinn í skafli á veginum

Björgunarsveitin Súlur var kölluð út um eittleytið í nótt og fóru átta björgunarsveitarmenn á sérútbúnum bílnum að sækja fólkið. Þegar björgunarsveitarmennirnir komu upp á heiðina gekk á með éljum og skaflar höfðu myndast á veginum.

Verra veður var fyrr um daginn og kvöldið og var heiðinni lokað um sexleytið. Enginn fór um heiðina frá kl. 18 til miðnættis, eða þegar ferðalanganir átta lögðu á heiðina. Fólkið ók annars vegar Range Rover og hins vegar Volvo Cross Country. Range Roverinn festist í skafli á veginum og komst Volvoinn ekki framhjá.

„Á þessum árstíma, með þetta veðurútlit var þetta ekki skynsamlegt ferðalag á þessum tíma sólarhring þar sem ekki er mokstur. Ekki nema menn séu á þeim mun betur búnum bílum sem þessir voru ekki,“ segir Magnús Viðar Arnarsson, formaður björgunarsveitarinnar, í samtali við mbl.is. Hvorki var því um heppilegan ferðatíma eða ferðamáta að ræða. 

Hafa rætt um að láta fólk greiða fyrir þjónustuna

Í frétt mbl.is í morgun var rætt við lögreglu á Akureyri. Þar kom fram að þar sem þriggja ára gamalt barn var meðal farþega í bílnum hafi ekki annað verið hægt en að bjarga fólkinu.

Magnús Viðar segir aldur þeirra sem eru í vanda staddir ekki skipta máli. Óski lögregla eftir að aðstoð björgunarsveita vegna þeirra sem eru í vanda staddir, bregðast sveitirnar við.

Hingað til hafa þeir sem þiggja aðstoð sveitarinnar ekki greitt fyrir þjónustuna. Magnús Viðar segir aðspurður að komið hafi til tals að láta þá sem þiggja hjálp í útköllum af þessu tagi, þ.e. þegar farið er inn á vegi sem lögregla hefur lokað, greiða fyrir þjónustuna.

„Við höfum rætt um að setja gjald á þá sem eru sóttir,“ segir Magnús Viðar en bætir við að ekki hafi verið tekin ákvörðun um málið hjá sveitinni.

Virtu lokanir að vettugi

Fólkið ók annars vegar Range Rover og hins vegar Volvo …
Fólkið ók annars vegar Range Rover og hins vegar Volvo Cross Country Ómar Óskarsson
Svona var um umhorfs í Bakkaselsbrekkunni kl. 13 í dag, …
Svona var um umhorfs í Bakkaselsbrekkunni kl. 13 í dag, 17. desember. Skjáskot af vef Vegagerðarinnar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert