Suðvestan stormur eða rok

Það verður éljagangur í dag og eins hvasst - verst …
Það verður éljagangur í dag og eins hvasst - verst á Suðvesturlandi og Vesturlandi mbl.is/Ómar Óskarsson

Það er suðvestan stormur eða rok suðvestan- og vestanlands fram eftir morgni og lítið skyggni í éljum, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. 

Að sögn veðurfræðings á Veðurstofunni er veðrið í hámarki nú en smám saman mun draga úr rokinu þegar líður á daginn. Það gengur á með éljum en veðrið er einna verst við ströndina suðvestantil og vestantil. Veðrið er mun betra fyrir austan, að sögn Helgu Ívarsdóttur, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Helga segir að það sé djúp lægð yfir Vestfjörðum sem verður þar í dag og hreyfist lítið. Þessi vindstrengur fylgir þessari lægð en það dregur hægt og rólega úr rokinu í dag.

„Það má búast við éljum sunnan- og vestantil í dag og á morgun líka, segir Helga en hitinn er við frostmark víðast hvar.

Veðurspá næsta sólarhring:

Suðvestan 18-25 m/s suðvestan- og vestanlands og éljagangur, hvassast við ströndina, en dregur smám saman úr vindi í dag. Suðvestan 8-15 um landið norðaustanvert og léttskýjað að mestu. Suðvestan 10-20 m/s síðdegis. Enn hægari í kvöld, en gengur í norðaustan 10-18 á Vestfjörðum. Áfram él sunnan- og vestantil, en bjart norðaustanlands. Frost 0 til 7 stig, en sums staðar frostlaust við suðurströndina.

Á fimmtudag:

Norðaustan 8-15 og snjókoma með köflum á Vestfjörðum, annars hægari breytileg átt og úrkomulítið, en él með S- og A-ströndinni. Frost 0 til 10 stig, kaldast í innsveitum.

Á föstudag:
Norðaustan 8-18 m/s, hvassast norðvestantil fyrir hádegi, en austanlands um kvöldið. Snjókoma eða él, en yfirleitt þurrt S-lands. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:
Vaxandi suðaustanátt og fer að snjóa S- og V-lands, hvassviðri og slydda eða rigning um kvöldið. Hægari vindur og úrkomulítið á NA-verðu landinu fram á kvöld. Hlýnandi í bili.

Á sunnudag:
Ákveðin suðvestan átt og snjókoma eða él, en styttir upp norðan- og austanlands síðdegis. Kólnandi veður.

Á mánudag:
Norðlæg átt og snjókoma eða él, en úrkomulítið á S- og SV-landi. Frost 0 til 7 stig.

Á þriðjudag (Þorláksmessa):
Breytileg átt, sums staðar dálítil él og talsvert frost.

Færð á helstu vegum landsins seint í gærkvöldi:

Það er hálka á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en hálkublettir á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi. Hálka eða hálkublettir eru á flestum leiðum á Suðurlandi.

Hálka eða snjóþekja er á Snæfellsnesi en ófært er á Fróðárheiði. Hálka er á Bröttubrekku en snjóþekja og skafrenningur á Holtavörðuheiði. Annars er hálka eða snjóþekja á Vesturlandi.

Á Vestfjörðum, stórhríð er á Kleifaheiði, Mikladal og Hálfdáni - og vegur ófær. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Klettsháls.  Annars staðar er snjóþekja eða hálka.

Það er snjóþekja og hálka á flestum vegum á Norðurlandi en flughálka er í Langadal og frá Sauðárkrók að Hófsósi. Þæfingsfærð og stórhríð er á Skagastrandarvegi. Ófært og stórhríð er á Þverárfjalli og á Vatnsskarði og lokað á Öxnadalsheiði. Ófært og óveður er á Fljótsheiði. Snjóþekja og stórhríð er á Víkurskarði. Vegurinn um Dalsmynni er lokaður. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Hófaskarði. Lokað er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum, einnig á Vopnafjarðarheiði.

Þungfært og skafrenningur er á Fagradal en ófært á Oddsskarði og Vatnsskarði eystra. Lokað er á Fjarðarheiði, annars er snjóþekja eða hálka og snjókoma á velflestum vegum á Austur- og Suðausturlandi. Frá Kirkjubæjarklaustri að Vík er þæfingsfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert