Var yfirtekin af ófreskju

Ólöf María Birnu Brynjarsdóttir
Ólöf María Birnu Brynjarsdóttir Mynd úr einkasafni

„Fyrir tæpu ári síðan gerði ég mér það ljóst að ég hafði grafið innan í mér leyndarmál, svo stórt að það hafði gleypt mig alla og líf mitt hafði mótast, án þess að ég gerði mér grein fyrir, alfarið af því. Meira að segja allir þeir erfiðleikar sem ég hafði upplifað mátti beint og óbeint rekja til þessarar ófreskju sem hafði yfirtekið mig.“

 Svona kemst Ólöf María Birnu Brynjarsdóttir að orði í pistli sem hún birti í dag. Pistillinn heitir Með óbragð í munni og segir frá kynferðislegu ofbeldi sem hún varð fyrir sem barn.

„Ég var misnotuð af fullorðnum einstakling þegar ég var barn, mjög lítið barn meira að segja 3 – 6 ára ca. Þessi einstaklingur var mér mjög náin og ég treysti honum fullkomlega. Allt frá því að þessi brot áttu sér stað, hef ég ekki treyst neinum, engum og allra síst sjálfri mér. Að lifa svoleiðis er ekki auðvelt, það hamlar þroska og gerir einstakling frekar að skotspón umhverfisins,“ segir Ólöf í pistlinum. 

„Ég var komin með leið á því að burðast ein með þetta,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is, aðspurð af hverju hún ákvað að tjá sig um ofbeldið í dag. Hún segist ekki hafa tjáð sig um það áður opinberlega.  

Pistillinn tengist BA ritgerð Ólafar sem hún vinnur nú að. „Ég er að rannsaka hvaða áhrif ofbeldi hefur á börn á fullorðinsárum,“ segir Ólöf sem bætir við að viðbrögðin við pistlinum hafi komið henni á óvart. „Ég held dagbók og var að skrifa í hana og komst að þeirri niðurstöðu að ég gæti ekki verið sú eina sem líður svona. Ég ákvað að koma þessu frá mér og miðað við viðbrögðin þá er þetta að ná til einhverra.“

Pistil Ólafar í heild sinni má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert