Verðbreytingar á veituþjónustu OR

Orkuveituhúsið
Orkuveituhúsið mbl.is/Ómar Óskarsson

Orkuveitan boðar breytingar á verði veituþjónustu sinnar um áramótin.

Breytingar á verði veituþjónustu Orkuveitunnar um áramótin eru einkum vegna breytinga á lögum um virðisaukaskatt. Hann hækkar á hitaveituna og lækkar á rafmagnið. Útgjöld fjölskyldu í 100 fermetra íbúð með algenga orkunotkun hækka um rúmar 270 krónur á mánuði.

Orkuveitan lækkar verð á heitu vatni en skatturinn hækkar

Verð Orkuveitunnar á heitu vatni, sem fylgt hefur vísitölu neysluverðs undanfarin misseri, lækkar um 0,1% nú um áramótin. Á móti kemur að virðisaukaskattur á hitaveituna hækkar úr 7% í 11%. Þess vegna má fólk búast við að hitareikningurinn hækki um 3,7% um áramótin.

Rafmagnsreikningurinn lækkar

Virðisaukaskattur á rafmagn – hvorttveggja dreifingar- og söluhlutann – lækkar úr 25,5% í 24%. Þar sem engin breyting verður hjá Orkuveitunni á dreifiverði rafmagns, sem er meira en helmingur rafmagnsreikningsins, birtist sú lækkun beint á rafmagnsreikningum sem 1,2% lækkun.

Vatns- og fráveitugjöld hækka um rúmt prósent

Víða eru vatns- og fráveitugjöld tiltekið hlutfall fasteignamats húseigna. Sú er ekki raunin hjá Orkuveitunni heldur eru gjöldin lögð á miðað við stærð húsnæðis og hafa tekið breytingum með byggingavísitölu. Hún hefur hækkað um 1,26% á árinu. Vatns- og fráveitur eru undanþegnar virðisaukaskatti þannig að breytingar á honum hafa ekki áhrif á verð fyrir þjónustuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert