Sérstakur mun ekki bera vitni

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, ásamt aðstoðarkonu sinni í réttarsal.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, ásamt aðstoðarkonu sinni í réttarsal. mbl.is/Þórður

Hæstiréttur hefur hafnað kröfu Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, um að Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, og fimm önnur vitni verði kvödd til skýrslutöku í héraði til að varpa ljósi á framkvæmd símhlerana hjá embætti sérstaks saksóknara í tengslum við áfrýjun Al Thani-málsins

Héraðsdómur Reykjavíkur varð við kröfu Hreiðars 10. desember sl. en synjaði beiðni Ólafs Ólafssonar um að Eggert Hilmarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings, bæri vitni.

Saksóknari kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem hefur nú kveðið upp sinn dóm. 

Þann 12. des­em­ber á síðasta ári dæmdi Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur Hreiðar Má í fimm og hálfs árs fang­elsi fyr­ir markaðsmis­notk­un og umboðssvik en Ólaf­ur hlaut þriggja ára dóm. Mál­inu var áfrýjað til Hæsta­rétt­ar og þar fer mál­flutn­ing­ur fram dag­ana 26. og 27. janú­ar nk.

Hreiðar Mál krafðist þess að við rekstur Al Thani-málsins fyrir Hæstarétti að að tiltekin vitni skyldu gefa skýrslu fyrir héraðsdómi í þeim tilgangi að varpa ljósi á framkvæmd símahlerunar við rannsókn málsins. Krafan var fyrst og fremst reist á því að fram hefðu komið nýjar upplýsingar um framkvæmdina en fyrir lá að tekin höfðu verið upp símtöl við Hörð Felix Harðarson, verjanda Hreiðars.

Í öðru lagi krafðist Hreiðar þess að tiltekin vitni skyldu leidd fyrir héraðsdóm í því skyni að varpa ljósi á atvik er lytu að breytingu á réttarstöðu Halldórs Bjarkar Lúðvígssonar, sem var fyrr­ver­andi starfsmaður fyr­ir­tækja­sviðs Kaupþings, við rannsókn málsins.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að upptökurnar af símtölum Hreiðars við verjanda sinn myndu ekki koma á neinn hátt til álita þegar leyst yrði úr sakamálinu á hendur honum sem til meðferðar væri fyrir Hæstarétti. Af þeim sökum hefði það enga þýðingu að upplýst yrði frekar um framkvæmd upptakanna og var því sá hluti hins kærða úrskurðar felldur úr gildi með vísan.

Hvað varðaði síðari kröfu Hreiðars lágu fyrir í málinu upplýsingar um af hverju réttarstöðu Halldórs hefði verið breytt. Hæstiréttur staðfesti því þann hluta, enda væri skýrslutaka af vitnunum um það atriði bersýnilega tilgangslaus til sönnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert