Tjónið mikið fyrir læknanema

Hætta er á að læknanemar á sumum deildum nái ekki að uppfylla lágmarksþátttöku til þess að ljúka námi á tilsettum tíma sökum verkfalls lækna og skurðlækna. Deildarfundur Læknadeildar lýsir yfir þungum áhyggjum af menntun heilbrigðisstétta og framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins.

Kjaradeila Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands við ríkið hefur þegar haft skaðleg áhrif á nám læknanema sem og vísinda- og fræðastarf í Læknadeild. „Áhrifin á heilbrigðisþjónustuna í landinu eru augljós og alvarleg. Ef vinnudeilan dregst enn frekar á langinn, blasa við alvarlegar afleiðingar fyrir háskólastarfið.  Á verkfallsdögum fellur klínísk kennsla læknanema og öll tækifæri þeirra til klínískrar þátttöku niður. Í samþjöppuðu sérhæfðu námi er mikil röskun því óumflýjanleg,“ segir í yfirlýsingu deildarfundar Læknadeildar. „Tjónið er að sjálfsögðu mikið fyrir nemendurna sjálfa en ekki síður fyrir heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert