Vændiskaupamál verða lokuð

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Þinghald í sjö vændiskaupamálum sem rekin eru í Héraðsdómi Reykjavíkur verður lokað. Dómari í málunum hafnaði kröfu Ingimars Karls Helgason, ritstjóra Reykjavíkur vikublaðs, um að þinghaldið yrði opið.

Málin voru tekin fyrir héraðsdómi í gær og kvað Ingimundur Einarsson héraðsdómari þá upp úrskurð um skriflega kröfu Ingimars Karls. Niðurstaða hans var sú að þinghaldið færi fram fyrir luktum dyrum. Það þýðir að aðeins þeir sem eiga beinan hlut að málinu mega vera inni í dómsalnum.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu 14. nóvember síðastliðinn að vísa bæri frá dómi kröfu Ingimars Karls sem hann setti fram sem blaðamaður og ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs, þ.e. um að þinghöld verði opin í vændiskaupamálunum, og er í úrskurðinum vísað til máls Höllu Gunnarsdóttur sem óskaði eftir því að þinghald væri opið í vændiskaupamálum árið 2010 og dóms Hæstaréttar um aðildarskort.

Ingimar Karl kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem komst að þeirri niðurstöðu 1. desember síðastliðinn að Ingimar Karl geti átt aðild að kröfunni og gerði héraðsdómi að taka kröfuna til efnislegrar meðferðar.

Fyrri frétt mbl.is: Fjölmiðlar viðstaddir vændiskaupamál?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert