Að „Blanda“ í jólaboðið

Ef þú átt enn ekki jólatré að dansa í kringum …
Ef þú átt enn ekki jólatré að dansa í kringum veistu hvað þú þarft að gera. mbl.is/Árni Sæberg

Það getur verið svo ógurlega erfitt að rífa sig af rassinum og niður í bæ að versla í jólamatinn. Líklega var það einmitt þess vegna sem internetið var fundið upp.

Mbl.is hefur áður greint frá því hvernig má komast hjá því að yfirgefa heimili sitt þegar kemur að gjafainnkaupum með því að versla á bland.is og nú er röðin komin að jólaboðunum. Margir sjá sig nauðbeygða til að bjóða ættingjum og vinum í heimsókn yfir hátíðarnar en þá þarf að sjá fólki fyrir fæði jafnt sem fjöri.

Fyrst þú nennir ekki út í búð er ólíklegt að þú nennir að þrífa en notandinn heidjo77 kippir því í liðinn fyrir þig gegn vægu gjaldi. Eigir þú enn eftir að finna jólatré skalt þú eigi örvænta því nóg er af þeim inni á bland.is og sama gildir um jólatrésfætur. Sömuleiðis má þar finna matarstell, jólagardínur og ógrynni af fötum og jafnvel handprjónaða jólakjóla á yngstu kynslóðina svo enginn fari í jólaköttinn. 

Hvað jólamatinn varðar er nóg framboð af bæði rjúpu, hreindýri og sjávarfangi og svo má jafnvel finna krydd til að gera steikina aðeins meira spennandi. Einnig mætti kaupa þetta fullbúna piparkökuhús og grobba sig af skreytingarhæfileikum sínum en óvíst er hvort það sé í raun ætt. Sörurnar í Reykjanesbæ eru hinsvegar gómsætar og tilvaldar með kaffinu eftir steikina en þeir sem búsettir eru fyrir norðan gætu hinsvegar smjattað á lakkrís.

Þá er komið að skemmtiatriðunum. Náist ekki í alvöru jólasvein fyrir gleðina er hægt að ráða notandann sighvaturs til að hlaupa í skarðið en hann getur einnig séð um tónlistarflutning. Sé meiri stemmning fyrir óhefðbundnum skemmiatriðum má fá þær Jasmin og Saphire til að dansa örlítinn magadans eða Kolbrun54 til að spá í kaffibollana hjá gestum. Og þá mega jólin koma!

Enn er von ef vantar rjúpur.
Enn er von ef vantar rjúpur.
Ef Stekkjastaur er upptekinn má leigja sér jólasvein.
Ef Stekkjastaur er upptekinn má leigja sér jólasvein.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert