Í tvo tíma í röð eftir jólaúthlutun

Margir sækja aðstoð til Mæðrastyrksnefndar.
Margir sækja aðstoð til Mæðrastyrksnefndar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Löng biðröð myndaðist fyrir utan húsnæði Fjölskylduhjálpar í Iðufelli um hádegi í dag þá væru enn tveir tímar í að jólaúthlutun hæfist.

Fjölskylduhjálp hefur þegar úthlutað í Hafnarfirði og í dag er einnig úthlutun í Hamraborg í Kópavogi.

„Fólk kemur hingað og bíður í þessum kulda af því að það er hrætt við að missa af en það er nóg til fyrir alla,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar. „Fólk þarf alls ekki að koma og bíða enda er það búið að skrá sig. Hér gildir ekki fyrstir koma, fyrstir fá.“

Gert er ráð fyrir að um 500 fjölskyldur fái jólaúthlutun í Iðufellinu í dag og 100 í Hamraborg. Um 170 fjölskyldur leituðu til Fjölskylduhjálpar í Hafnarfirði í gær og aftur verður úthlutað í Iðufelli og Reykjanesbæ á mánudag. Á Þorláksmessu verður svo jólapökkum úthlutað frá 11 til 15 og geta þeir sem vilja láta gott af sér leiða komið með pakka beint í Iðufellið.

Ásgerður segir þá sem ekki hafa skráð sig en eiga um sárt að binda geta haft samband við Fjölskylduhjálp eftir klukkan 17 á mánudaginn.

„Þá sjáum við hvað eftir er. Oft berst okkur kjöt alveg fram á Þorláksmessu. Við viljum koma sem mestu út til fólksins frekar en að setja þetta í frysti svo fólk getur hringt í okkur og fengið það sem eftir stendur.“

Hún segir um 60 sjálfboðaliða aðstoða við jólaúthlutunina og að hópurinn sé eins og stór fjölskylda.

 „Við höfum líka notið alveg gríðarlegs velvilja hjá fyrirtækjum og fólkinu í landinu. Við erum ofboðslega sátt í sálinni og glöð í hjarta yfir því hvað fólk hefur lagst á árarnar með okkur,“ segir Ásgerður .

Meira af launafólki en áður

Mæðrastyrksnefnd gengur vel að safna birgðum og fjármagni fyrir jólaúthlutun en á hinn bóginn bætist enn í hóp þeirra sem leita til þeirra.

Ragnhildur Guðmundsdóttir,  formaður nefndarinnar, segir að fólk í fullri vinnu leiti í auknum mæli til nefndarinnar þar sem laun margra séu svo lág að ekki sé vinnandi vegur að sjá sér farborða á þeim.

„Það gengur ekki að það sé samið um laun sem fólk getur ekki lifað af. segir Ragnhildur.  

Hún nefnir að mikið af þem sem til þeirra leiti séu einstæðir foreldrar, öryrkjar og eldri borgarar auk þess sem nokkuð sé um að háskólafólk og aðrir námsmenn þurfi á hjálp að halda.

„Það eru margir hópar sem eiga við gríðarlega erfiðleika að etja. Við fáum til okkar þverskurðinn af íslensku þjóðfélagi.“

Mæðrastyrksnefnd hefur tekið á móti umsóknum vegna jólaúthlutunar alla þriðjudaga frá því í október en Ragnhildur segir þó að alltaf sé gert ráð fyrir því að fleiri bætist í hópinn á síðustu stundu. Opið er hjá nefndinni í dag og á mánudaginn en þrátt fyrir að ekki sé opið á Þorláksmessu eða aðfangadag segir Ragnhildur að nefndin svari fyrirspurnum og bregðist við þurfi einhver á hjálp að halda.

„Við gerum ráð fyrir að geta aðstoðað alla sem koma til okkar. Auðvitað verður eitthvað minna eftir þegar líður á en við búum okkur undir að hafa nóg fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda.“

Ásgerður Jóna segir nóg til fyrir alla þá sem þurfa …
Ásgerður Jóna segir nóg til fyrir alla þá sem þurfa á hjálp að halda. ljósmynd/ Ernir Eyjólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert