Ferðin til Íslands stóðst væntingar

Ferðin til Íslands stóðs kröfur ferðamanna í lang flestum tilfellum. …
Ferðin til Íslands stóðs kröfur ferðamanna í lang flestum tilfellum. Náttúran var sem fyrr það sem heillaði flesta, en margir nefndu að úrval veitingastaða hefði mátt vera betra. Ljósmynd/Birkir Fanndal

Rúmlega 95% af þeim ferðamönnum sem komu til landsins í sumar sögðu að ferðin hafi staðið undir væntingum. Þá telja 83% ferðamanna líklegt að þeir muni ferðast aftur seinna til Íslands. Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna í sumar. Hlutfall þeirra sem sögðu ferðina standa undir væntingum er nánast það sama og í síðustu vetrarkönnun þegar hlutfallið var 96%.

Mikil fjölgun ferðamanna hefur ekki áhrif á lengd dvalar

Langflestir, eða 86,9%, voru hér í fríi og var dvalarlengdin að jafnaði um 10 nætur, samanborið við 10,2 nætur í síðustu sumarkönnun. Flestir, eða nærri helmingur ferðamanna, gisti hins vegar á bilinu 3-7 nætur. Mikil fjölgun ferðamanna hefur því ekki haft áhrif í þá átt að fleiri séu að koma til styttri dvalar.

Þegar gistinætur eru síðan skoðaðar eftir tegund gistingar má sjá að flestum gistinóttum var eytt á hótelum og gistiheimilum (35,3%) og tjaldsvæðum (24,9%). Þar á eftir kom gisting í húsnæði í einkaeigu (10%), á farfuglaheimilum eða skálum, hjá vinum og ættingjum (8%) og í annarri gistingu (13,4%).

Aldrei fleiri á eigin vegum

Fjöldi þeirra sem kemur á eigin vegum hefur aldrei verið hærri, en 84,3% aðspurðra sögðust koma á eigin vegum.  Af þeim bóka þrír af hverjum fjórum ferð sína beint hjá flugfélagi eða á netinu af öðrum vefsíðum en flugfélaga.

Kvikmyndir og sjónvarpsþættir virðast auka áhuga ferðamanna en 13,9% nefndu þann möguleika sem áhrifaþátt í vali á komu til landsins, samanborið við 9,7% í síðustu könnun. Flestir nefna sem fyrr almennan áhuga á landi og náttúru en þetta hlutfall hefur hins vegar lækkað jafnt og þétt í síðustu könnunum, úr 61,7% sumarið 2011 í 44,7% nú. Að sama skapi hækkar hlutfall þeirra sem nefna vini og ættingja og Internetið.

Telja úrval veitingastaða fábrotið

Sem fyrr var náttúran helsta aðdráttaraflið og það sem ferðamenn töldu jákvæðast hér á landi. Þar á eftir kom gestrisni Íslendinga. Helst töldu ferðamenn úrbóta þörf varðandi þjónustu og úrval á mat og veitingastöðum en 10% af þeim sem svöruðu spurningunni nefndu þann þátt. Ástand vega nefndu 9,3%, valmöguleika í afþreyingu 7,3% og aðgengi að upplýsingum 7%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert