Meðallaun lækna rúm 1,1 milljón

.
. mbl.is/Ómar

Meðallaun lækna á launaskrá hjá ríkinu á síðasta ári voru 1.126.292 krónur á mánuði. Miðað er þar við heildarlaun lækna, þ.e. dagvinnulaun, yfirvinnulaun, vaktaálag, stjórnunarálag, helgunarálag, menntunarálag o.s.frv. Skurðlæknar eru ekki inni í þessari tölu. Heildarfjöldi ársverka að baki þessu meðaltali er 569.

Þetta kemur fram í upplýsingum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið birtir á vefsíðu sinni í dag. „Leitað hefur verið eftir því við fjármála- og efnahagsráðuneytið að það birti tölulegar upplýsingar um laun lækna sem starfa hjá ríkinu. Af því tilefni hefur ráðuneytið annars vegar tekið saman gögn um meðallaun þeirra lækna sem þiggja laun frá ríkinu og hins vegar upplýsingar um meðaltal heildarlauna lækna sem starfa á Landsspítala Íslands, sundurliðaðar eftir stöðuheitum,“ segir á vef ráðuneytisins.

Heildarlaunagreiðslur til lækna sem starfa á Landsspítala Íslands voru að meðaltali sem hér segir á síðasta ári: Kandídat 671.716 krónur á mánuði, almennur læknir 858.119 krónur, sérfræðingur 1.133.310 krónur, yfirlæknir 1.342.183 krónur, sérfræðingur á sviði skurðlækninga 1.296.389 krónur, yfirlæknir á sviði skurðlækninga 1.673.486 krónur.

Heildarlaunagreiðslur til lækna sem starfa við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins voru að meðaltali sem hér segir: Almennur læknir 608.433 krónur á mánuði, sérfræðingur 1.013.696 krónur og yfirlæknir 1.183.820 krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert