Rúta með 14 farþegum fauk af veginum

Mjög hvasst er í Fljótshverfi og ráðleggur lögreglan fólki að …
Mjög hvasst er í Fljótshverfi og ráðleggur lögreglan fólki að vera ekki á ferðinni. mynd/Landsbjörg

Rúta með fjórtán farþegum fauk af þjóðvegi 1 rétt vestan við Kálfafell í Fljótshverfi á Suðurlandi. Rosalega hvasst var á staðnum og ísing á veginum. Varðstjóri á Hvolsvelli segir að rokið á þessum stað sé mjög hættulegt sem standi, en lögreglubifreið sem kom á staðin tókst á loft og var næstum farin út af veginum eins og rútan. Allir farþegar rútunnar sluppu ómeiddir.

Í rútunni voru fjórtán ferðamenn á leiðinni vestur, en björgunarsveitin Kyndill á Kirkjubæjarklaustri var kölluð út og sótti hún ferðamennina og kom þeim í björgunarmiðstöðina á Kirkjubæjarklaustri. Ekki hefur enn verið ákveðið hvernig koma eigi þeim til Reykjavíkur, en lögreglan segir að vindurinn sé það mikill að illa geti gengið að halda bílum á veginum í mestu hviðum.

Vegkanturinn þar sem rútan fór út af var nokkuð hár, en samkvæmt lögreglu á staðnum lenti hún í snjóskafli sem hefur dregið nokkuð úr högginu. Stuttu seinna fór annar bíll næstum sömu leið og rútan, en hann endaði með eitt hjól utan vegar. Þegar lögregluna bar að garði tókst lögreglubíllinn einnig á loft og rann næstum út af. Sagði varðstjóri að bíllinn hefði endað á smá malarhaug sem hefði komið í veg fyrir að frekara tjón. Ítrekaði hann fyrir vegfarendum að vera ekki að ferðast á svæðinu nema að nauðsyn, en bæði rútan og lögreglubíllinn voru á vel negldum dekkjum og keyrandi í fyrsta gír þegar vindurinn tók bílana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert