Segir upp „gjörsamlega útbrunninn“

Brynjar segir að ef ekki gefist tími til að fara …
Brynjar segir að ef ekki gefist tími til að fara vandlega yfir alla þætti sjúkdómssögu, rannsóknaniðurstaðna og meðferðarúrræða og hafa samráð við kollega á spítalanum sé ekki unnt að vera þess fullviss að hafa ekki misst af einhverju. mbl.is/ÞÖK

Brynjar Viðarsson, sérfræðingur í lyf- og blóðlækningum, hefur sagt starfi sínu lausu á Landspítalanum, en uppsögnin tekur gildi 1. janúar nk. Brynjar segir að þetta sé gert með miklum trega en hann kveðst vera „gjörsamlega útbrunninn“.

Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir blóðmeinafræðideildar spítlans, segir að þetta sé háalvarlegt mál og hann óttast að fleiri uppsagnir séu í vændum.

„Það er með miklum trega að ég afhendi ykkur uppsagnarbréf mitt að 40% starfshlutfalli blóðlæknis á Rannsóknarstofu í blóðmeinafræði og 30% starfi blóðlæknis á Blóðlækningadeild Landspítalans. Uppsögn mín tekur gildi 1. janúar 2015,“ segir Brynjar í uppsagnarbréfinu sem er dagsett 15. desember sl.

Vinnuálagið hefur aukist jafnt og þétt

Fram kemur að Brynjar hafi unnið á sjúkrahúsinu undanfarin 14 ár, eða frá árinu 2000 þegar hann kom heim úr sérnámi í Bandaríkjunum, þá 36 ára gamall. 

„Ég hef virkilega notið starfsins á Landspítalanum enda fjölbreytt og mjög krefjandi í alla staði. Ólíkt því sem ég nú miðaldra læknirinn bjóst við, hefur vinnuálagið aukist jafnt og þétt með árunum og þrátt fyrir að ég minnkaði stöðuhlutfall mitt úr 80% í 70% hef ég áfram þurft að sinna rúmlega 100% starfi, en nú bara á styttri tíma og fyrir lægri laun. Er svo komið að ég er gjörsamlega útbrunninn og sé ekki fram á breytingar til bóta þar sem engin nýliðun er sjáanleg í mínu fagi og því verður um einungis meiri og hraðari hlaup að ræða. Undir slíkum kringum stæðum er mikil hætta á mistökum við meðferð alvarlegra illkynja blóðmeina eins og hvítblæðis,“ skrifar Brynjar. 

„Ef ekki gefst tími til að fara vandlega yfir alla þætti sjúkdómssögu, rannsóknaniðurstaðna og meðferðarúrræða og hafa samráð við kollega á spítalanum er ekki unnt að vera þess fullviss að hafa ekki misst af einhverju. Því fer fjarri að slíkt sé mögulegt í dag. Þá er í þessum aðstæðum engan veginn hægt að rækja kennsluhlutverk mitt á háskólasjúkrahúsinu á ábyrgan hátt sem mér þykir afar leitt,“ segir hann ennfremur.

Getur ekki haldið áfram við óbreytt ástand

Brynjar segir að honum þyki mjög vænt um starfið og alla sjúklingana sem hann hafi meðhöndlað. Einnig þykir honum vænt um læknanemana sem hann hafi notið þess að fá að kynnast.

„Ég vona að samningar náist til að laða til baka nýja sérfræðinga á LSH en þangað til get ég ekki samvisku minnar vegna haldið áfram við óbreytt ástandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert