Eiga bara eftir að ryksuga

Unnur Bjarnadóttir og Ásgeir Lárusson hafa komið upp öllum skreytingum …
Unnur Bjarnadóttir og Ásgeir Lárusson hafa komið upp öllum skreytingum inn og úti. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Hátíð ljóss og friðar er handan við hornið og í Tungu í Neskaupstað er nánast allt tilbúið. „Ég á bara eftir að ryksuga,“ segir Unnur Bjarnadóttir, sem fæddist í húsinu 1933 og hefur búið í því síðan, í liðlega 81 ár, en á jóladag halda hún og eiginmaðurinn Ásgeir Lárusson upp á 60 ára brúðkaupsafmæli. Að sjálfsögðu í Tungu sem hefur verið þeirra sameiginlega heimili alla tíð.

Frá því þau hófu búskap hafa þau skreytt húsið fyrir jólin. „Fyrstu jólin var lítill peningur til en við reyndum að gera eins og við gátum,“ segir Ásgeir, sem er á tíræðisaldri og nýbúinn að koma skreytingunum fyrir með aðstoð eiginkonunnar, sem sér alfarið um gluggaskreytingarnar innanhúss og ýmislegt annað. „Ég get haldið á ýmsu og eitthvað klifrað, held í spotta fyrir manninn þegar við erum komin út fyrir hússins dyr,“ segir Unnur. „Hún er eitilhörð og dugleg,“ segir Ásgeir eða Geiri Lár í Tungu eins og hann er kallaður.

Mikil vinna

Ásgeir segir að skreytingarnar taki sinn tíma. „Þetta er heilmikið verk,“ segir hann og bætir við að hann fái ljósin að mestu í Neskaupstað og fylli svo á þegar hann eigi leið um Reykjavík. „Það fara þónokkuð margir dagar í þetta og ég tala ekki um þegar maður er orðinn svona fullorðinn.“ Áréttar að hann fari ekki upp í eins háa stiga og áður og sæti lagi þegar veður sé gott. „Þetta tekst samt einhvern veginn alltaf og lukkast ágætlega. Og ég hef aldrei orðið fyrir skaða.“

Foreldrar Unnar bjuggu í Miðfirði og fluttu litla húsið þaðan í Neskaupstað 1923, en Ásgeir byggði svo við það og yfir það. „Húsið hét Hóll í Miðfirði en hér var sandmelur, sem myndaði tungu og þess vegna var húsið nefnt Tunga,“ segir Unnur. „Hér hefur alltaf verið góður andi og ég hef aldrei getað hugsað mér að flytja.“

Þegar Ásgeir var 75 ára hætti hann að vinna en hann var fulltrúi bæjarfógeta í Neskaupstað í 40 ár auk þess sem hann var fréttaritari Morgunblaðsins í 15 ár. „Það var gríðarlega mikið að gera hérna þegar norsk-íslenska síldin var við dyrnar hjá okkur,“ rifjar hann upp með glampa í augum. „Þá lágu 70 til 80 skip inni á firðinum og því nóg að gera hjá mér fyrir utan fastastarfið.“

Hann ekur um á 14 ára gömlum Subaru og er ánægður með gripinn. „Hann hefur aldrei klikkað. Það eina sem ég hef þurft að gera er að skipta einu sinni um geymi.“

Tunga er vel skreytt að vanda á jólum.
Tunga er vel skreytt að vanda á jólum. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert