Frumflytja heiðið jólalag á sólstöðum

Ásatrúarmenn fagna vetrarsólstöðum á sunnudaginn í Öskjuhlíð.
Ásatrúarmenn fagna vetrarsólstöðum á sunnudaginn í Öskjuhlíð. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Heiðið jólalag verður frumflutt í tengslum við jólablót Ásatrúarfélagsins á sunnudaginn, en þá eru vetrarsólstöður. Blótið hefst á lóð félagsins í Öskjuhlíð og síðan munu félagsmenn ganga til veislu. 

Að sögn Halls Guðmundssonar, lögsögumanns (formanns Lögréttu, stjórnar félagsins), verður blótið helgað af allsherjargoða. Um er að ræða látlausa athöfn með stuttu ávarpi og er orðið frjálst eftir það. „Fólk getur lyft horni og drukkið heill goða og manna,“ segir Hallur í samtali við mbl.is.

Í beinu framhaldi af blótinu koma félagsmenn saman, borða góðan mat og fylgjast með skemmtiatriðum. „Fólk gerir sér glaðan dag og fagnar hinum heiðnu jólum, því að nú sé sól að rísa á ný,“ segir Hallur. Einnig sjá börnin um svokallaða ljósaathöfn.

Flest jólalögin vísun í kristinn sið

Í jólablótveislunni verður einnig frumflutt heiðið jólalag. „Okkur langaði svo að koma upp eigin jólalögum. Þau eru felst, en þó ekki öll, vísun í kristinn sið. Það er vissulega gott en okkur vantaði okkar eigin lög,“ segir Hallur. „Við vonumst til þess að með þessu vakni smá sköpunarkraftur hjá fleiri meðlimum eða hjá þessum höfundum.“

Textinn er saminn upp úr Skírnismálum úr Eddukvæðunum en kvæðið hefur orðið að nokkurs konar jólasögu félagsins. Hér má sjá textann við jólalagið en hann er sunginn við þjóðlagið Góða veislu gjöra skal eftir Teresu Dröfn Njarðvík.

Góða veislu gjöra skal,
gleðjumst vér í nátt,
hækkar sól á himni
og hverfur myrkrið brátt.

Viðlag

Svo sólin hækka fer,
lengist ljósið smátt,
græðist grund þá vænum lauk
og ein finnst grátt

Viðlag

Forðum hann Freyr ástarhug
felldi Gerðar til.
Sendi í för Skírni,
„Seg henni hvað ég vil“

Viðlag

Fékkst brúður með fortölum,
fékkst að lokum á,
„eftir nætur níu að Barra
njótumst þá“.

Heimasíða Ásatrúarfélagsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert