Höfundarnir bak við búðarborðið

Rithöfundar sem eiga bækur í jólabókaflóðinu afgreiða í dag bókaþyrsta viðskiptavini í Bókabúð Máls og menningar, Laugavegi.

Anna Lea Friðriksdóttir, verslunar- og sölustjóri bókabúðarinnar, segir í samtali við mbl.is að svona viðburður hafi tíðkast í bókabúðinni síðustu ár. „Það er alltaf svo annasamt hérna fyrir jólin að okkur vantar yfirleitt smávegis aðstoð. Þá eru rithöfundarnir ódýrt og gott vinnuafl,“ segir Anna en tekur þó fram að um grín sé að ræða.

„Í raun og veru er þetta skemmtileg hefð sem við reynum að halda við á hverju ári. Rithöfundarnir eru alltaf tiltækilegir og ennþá hefur ekki nokkur maður neitað boðinu um að koma til okkar,“ segir Anna Lea.

„Rithöfundarnir fara misjafnlega að þessu, sumir moka út bókunum sínum en aðrir eru skiljanlega feimnari við að koma sjálfum sér á framfæri. Þeir koma þá frekar sínum starfssystrum og -bræðrum til aðstoðar. Þá vilja sumir helst vera við afgreiðslukassann en flestir ganga um búðina og aðstoða gesti búðarinnar við val á bókum. Allt setur þetta mjög skemmtilegan blæ á búðina.“

Átta sig ekki á því hver er að afgreiða

„Svo gerist það oft að einhverjir kaupa bók og átta sig ekki á því um leið að höfundur bókarinnar er að afgreiða þá. Höfundarnir eru þá alltaf viljugir til að árita bókina í leiðinni,“ segir Anna Lea. Aðspurð segir hún bóksöluna ganga vel fyrir jólin. „Fólk er greinilega ekki að gleyma að gefa bækur.“

Núna klukkan fjögur munu rithöfundarnir Gunnar Helgason, Vilhelm Anton Jónsson og Guðrún Eva Mínervudóttir mæta í bókabúðina til að aðstoða gesti við bókakaup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert