Icelandair flugvél varð fyrir eldingu

Mbl.is/Sigurður Bogi

Flugvél Icelandair varð fyrir eldingu í morgun. Vélin var að koma frá Keflavík og var í aðflugi til Billund í Danmörku þegar eldingunni sló niður.

Vélin átti að flytja hóp farþega til Íslands frá Billund og átti hún að fara í loftið klukkan 12:40 að staðartíma.

Samkvæmt Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, fór flugvélin í skoðun til að tryggja að öruggt væri að fljúga henni aftur heim. Nú sé hinsvegar ljóst að skoðunin muni taka lengri tíma en talið var og því verður önnur vél send frá Keflavík til Billund að sækja farþegana.

Slíkar uppákomur eru mun algengari en margur myndi halda. Í umfjöllun Morgunblaðsins um svipaða uppákomu árið 2006 kemur fram að engin ástæða sé til að óttast þegar eldingu slær í flugvél.

Haft er eftir Hilmari B. Baldurssyni, flugrekstrarstjóra hjá Icelandair  að eldingu ljósti niður í vélar félagsins að meðaltali einu sinni á ári. Að sögn Ragnars verða vélar félagsins þó sjaldnast fyrir eldingum hér við land, mun algengara sé að vélarnar verði fyrir eldingum á flugi erlendis þar sem þrumuveður eru tíðari en hérlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert