Fleiri klára námið á þremur árum

Ljósmynd/Gunnar Hólmsteinn Ársælsson.

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ útskrifaði 67 nemendur frá skólanum við hátíðlega athöfn laugardaginn 20. desember. Flestir nýstúdentar voru af náttúrufræðibraut, alls 19, en þar á eftir fylgdu félagsfræðabraut með 15 nemendur og um sömu tölu var að ræða hjá listnámsbrautum.

Dúx skólans var Benney Þöll Ómarsdóttir, með 9,5 í meðaleinkunn. Fékk hún einnig fjölda námsverðlauna. Boðið var upp á söng, tónlistaratriði og ávarp nýstúdents, sem Agnes Alda Magnúsdóttir flutti.
 
Kristinn Þorsteinsson, skólameistari FG, rædd meðal annars fyrirhugaðar breytingar á framhaldsskólakerfi landsins í ræðu sinni og sagði að sennilega myndi þeim nemendum sem ljúka stúdentsprófi á styttri tíma en nú er algengt fjölga. Hann vék einnig að vandamálum tengdum brottfalli úr námi og sagði að um væri að ræða vandmál sem allt samfélagið þyrfti að taka á.

Kristinn telur einnig að íslenskt skólakerfi búi yfir mörgum styrkleikum: ,,Einn helsti styrkleiki íslenska skólakerfisins eru jöfn tækifæri til menntunar og lítill munur á árangri nemenda milli skóla. Félagsleg staða hefur lítil áhrif á árangur nemenda og aðgengi að menntun er gott...Annar kostur við íslenskt menntakerfi er að íslenskum nemendum líður almennt vel og erum við í fjórða sæti meðal ríkja á því sviði samkvæmt könnun frá  Alþjóða heilbrigðisstofnuninni. Þetta er mjög jákvæðar fréttir og það er ljóst að skóli sem hefur ánægða nemendur sem líður vel er að gera eitthvað rétt,“ sagði Kristinn Þorsteinsson, skólameistari FG.

Dúx skólans var Benney Þöll Ómarsdóttir.
Dúx skólans var Benney Þöll Ómarsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert