Snjókoma á Norðurlandi

mbl.is/Styrmir Kári

Búast má við snjókomu og skafrenningi um landið norðaustanvert frá Skagafirði austur með Norðurlandi að Austfjörðum í dag.

Það hvessir af norðaustri á Vestfjörðum og NV-landi í kvöld. Spáð er 15-23 m/s og snjókomu og skafrenningi. Mjög takmarkað skyggni verður fram á nótt.

Færð og aðstæður

Á Hellisheiði, Þrengslum og Sandskeiði er hálka og éljagangur. Það er hálka og snjóþekja á Suðurlandi en hálkublettir og hálka á Suðvesturlandi. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut. Flughált er í Grafningnum.

Á Vesturlandi er hálka og snjóþekja og sumstaðar éljagangur. Flughált er í sunnanverðum Hvalfirði og í uppsveitum Borgarfjarðar.

Á Vestfjörðum er hálka, krap eða snjóþekja á flestum leiðum. Flughált er á Ströndum.

Snjóþekja eða hálka er á Norðurlandi og víða él. Snjóþekja og skafrenningur er á Öxnadalsheiði.

Hálka er á Austurlandi og sumstaðar flughált. Flughálka er víða á útvegum sem og á Vatnsskarði eystra. Á Suðausturlandi er hálka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert