Hirðir sorp á aðfangadag

mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Sorphirða Reykjavíkur verður að störfum á aðfangadag til að bæta upp tafir vegna færðar og veðurs síðustu daga samkvæmt fréttatilkynningu. Fram kemur að mikið magn úrgangs yfir aðventuna, jól og áramót geri sorphirðu einnig erfiða. Losa hafi átt tunnur í Breiðholtinu á morgun, Þorláksmessu, en vegna tafa verði hreinsað þá í Laugarneshverfinu sem hafi átt að losa í dag. Reynt verði eftir fremsta megni að ljúka sorphirðu í Breiðholti fyrir jól en óljóst sé þó hvort það takist. 

„Sorphirða hefst aftur eftir jól laugardaginn 27. desember. Íbúar eru hvattir til að setja allt tilfallandi umframsorp sem ekki rúmast í gráu tunnunni í sérmerkta poka sem hægt er að kaupa hjá N1 stöðvum í Reykjavík og í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14. Pokinn er eingöngu ætlaður undir blandaðan heimilisúrgang frá heimilum í Reykjavík og skal staðsetja hann við hlið tunnunnar. Einnig er hægt að skila úrgangi á endurvinnslustöðvar SORPU bs. sem eru sex á höfðuborgarsvæðinu.“

Minnt er á opnunartíma endurvinnslustöðva yfir hátíðirnar. Opið verði á Þorláksmessu frá klukkan 12:30-19:30 nema á Breiðhellu. Þar opni klukkan 8:00. Stöðvarnar verði aftur opnar eftir jól klukkan 12:00 27. desember. Ávallt sé hins hægt að skila pappírs- og plastefnum til grenndarstöðva í Reykjavík og í bláar tunnur. Öllum gjafaumbúðum megi skila í grenndargáma og á endurvinnslustöðvar hvort sem þær eru litaðar eða ekki. Ganga þurfi þó úr skugga um að þær séu gerðar úr pappír en ekki plasti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert