Hjólreiðakeppnin skilaði milljónum fyrir LSH

Alma Möller framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, Jóhann Róbertsson sérfræðingur í handarskurðlækningum, Yngvi …
Alma Möller framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, Jóhann Róbertsson sérfræðingur í handarskurðlækningum, Yngvi Ólafsson yfirlæknir bæklunarskurðdeildar, Lilja Stefánsdóttir framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs, C-boginn, María Ögn Guðmundsdóttir verkefnastjóri WOW Cyclothon, Benedikt Olgeirsson aðstoðarforstjóri Landspítalans og Svanhvít Friðriksdóttir upplýsingafulltrúi WOW air. Ljósmynd/LSH

WOW Cyclothon hjólreiðakeppnin var haldin í þriðja sinn dagana 24. júní -27. júní 2014. Alls tóku þátt 520 manns og var áheitasöfnun liðanna framar björtustu vonum en liðið Hjólakraftur leiddi áheitasöfnunina. Þegar keppnin hófst var markmiðið að safna um 10 milljónum til styrktar tækjakaupum fyrir bæklunarskurðdeild Landspítala-Háskólasjúkrahús en mikill skortur hefur verið á tækjum og þörf á endurnýjun þeirra. 

Formleg afhending á C-boganum svokallaða fór fram á bæklunarskurðdeildinni á Landspítalanum í Fossvogi.

„C-bogi eða skyggnimagnari er eitt form af röntgentækjum sem er færanlegt, birtir mynd á skjá samtímis og er meðfærilegt þannig að það nýtist á skurðstofum við aðgerðir á beinum,“ er haft eftir Jóhanni Róbertssyni, sérfræðingi í handarskurðlækningum á Landspítalanum, í fréttatilkynningu. „Það tæki sem við höfum nú fengið fyrir söfnunarpening WOW Cyclothon leysir af hólmi þrettán ára gamalt tæki. Á þeim tíma hafa orðið verulegar framfarir í flestu því sem lýtur að svona tæki, upplausn og gæði mynda hafa batnað verulega, geislamagn mun minna og svo framvegis. Myndgæðin á þessu tæki eru mjög góð en það skiptir meginmáli í meðferð brota að fá eins skýra mynd og kostur er af legu brotsins og staðsetningu festibúnaðar hvort sem um er að ræða pinna, skrúfur eða plötur.

Þar sem svo margir hétu á hjólreiðarfólkið var safnað meiru en þurfti fyrir skyggnimagnara. Það varð því afgangur sem við nýttum til að endurnýja áhöld til notkunar í smásjáraðgerðum við tengingar á taugum og æðum. Fyrri áhöld voru orðin mun eldri en gamli skyggnimagnarinn. Þessi smásjáráhöld eru líkt og skyggnimagnarinn einkum ætluð handarskurðlæknum en geta nýst fleirum eins og til dæmis lýtalæknum.“ 

Skráning í WOW Cyclothon fyrir næsta ár hefst í janúar og búist er við enn fleiri þátttakendum í keppnina sem verður haldin 23.-26. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert