Hlupu uppi þjóf og svikahrapp

Nóg er að gera í verslunum á Laugavegi fyrir jólin. …
Nóg er að gera í verslunum á Laugavegi fyrir jólin. Því miður hafa ekki allir hreint mjöl í pokahorninu sem líta þangað inn. Kristinn Ingvarsson

Starfsmaður og viðskiptavinur herrafataverslunarinnar Karlmanna á Laugavegi hlupu uppi þjóf sem stal buxum úr versluninni í gær. Þeir höfðu hönd í hári hans á Hótel Klöpp þar sem hann hafði meðal annars svikið út veitingar síðustu daga.

„Það var full búð. Hann var að skoða buxur, skellti einum inn á sig og rauk út. Það var einn starfsmaður sem tók eftir að hann hljóp snöggt út og annar viðskiptavinur sem sá hann stinga inn á sig. Þeir hlupu á eftir honum. Þá hljóp hann upp Laugaveginn, beygði niður Klapparstíginn og þeir sjá hann fara inn á Hótel Klöpp,“ segir Sigurþór Þórólfsson, eigandi verslunarinnar.

Þar inni stöðvuðu starfsmaður verslunarinnar og viðskiptavinurinn þjófinn sem þrætti fyrir að hafa stolið buxunum. Hringt var á lögregluna og héldu þeir þjófnum þar til hún kom á staðinn. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu játaði maðurinn brot sitt við yfirheyrslu í gær. Honum var sleppt í kjölfarið og má eiga von á ákæru vegna búðarhnupls.

Samkvæmt upplýsingum Hótel Klappar hafði maðurinn komið reglulega á hótelið síðustu daga og fengið sér kaffi. Hafði hann jafnvel spjallað við starfsfólk sem taldi hann vera gest þar.

Sigurþór segir manninn, sem hafi verið af erlendu bergi brotinn, á besta aldri og vel á sig kominn, hafa verið með fullan bakpoka af góssi sem hann hafi verið búinn að stela úr öðrum búðum, þar á meðal snyrtivörum.

„Ég vil bara vara við. Nú er hann kominn aftur á götuna og fer ábyggilega í sama leikinn aftur í jólatraffíkinni,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert