Kvíðir fyrir að nota þjónustuna

Rakel Árnadóttir er ósátt með Ferðaþjónustu fatlaðra.
Rakel Árnadóttir er ósátt með Ferðaþjónustu fatlaðra. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Ég er bara mjög pirruð yfir þessu, þetta eyðilagði tónleikana,“ segir Rakel Árnadóttir,en hún er ósátt við Ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík. Rakel, sem býr í íbúðarkjarna fyrir fatlaða og er í hjólastól hafði pantað sér sérstakan bíl til þess að fara með hana á tónleika hjá Stefáni Hilmarssyni söngvara. Þegar að bíllinn kom var það aðeins venjulegur leigubíll sem er ekki hannaður fyrir hjólastóla.

Þar af leiðandi kom Rakel of seint á tónleikana og missti af tveimur lögum.

„Ég er alveg rosalegur aðdáandi Stefáns og hafði hlakkað til að fara á tónleikana. Mér leið mjög illa yfir því að hafa komið seint og misst af tveimur lögum,“ segir Rakel en bætir við að þetta sé ekki einsdæmi.

„Fólk er að lenda í þessu reglulega, bæði að það sé að fá vitlausa bíla og að þeir annaðhvort komi of seint eða komi ekki neitt. Ég var til dæmis á öðrum tónleikum með Stefáni fyrr í desember þar sem enginn bíll kom að sækja mig. Ég þurfti að panta sérstakan leigubíl og kostaði það mig tæpar sjö þúsund krónur.“

Ferðaþjónusta fatlaðra starfar undir Strætó. Samkvæmt vef Strætó starfar Ferðaþjónusta fatlaðra eftir reglum sem samþykktar voru í velferðarráði 19. október 2005 og staðfestar í borgarráði 24. nóvember 2005. Farið er niðurgreitt og kostar það 175 krónur.

Rakel vill ekki sakast við fólkið sem tekur niður pantanir fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra.

Hún segir jafnframt að hún og fleiri séu alveg háðir Ferðaþjónustu fatlaðra því þeir komast ekki á milli staða. „En það þarf eitthvað að breytast. Ég kvíði núna alltaf fyrir því þegar ég þarf að panta hjá þeim bíl.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert