Lögðu hald á skjaldbökur

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. AFP

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði nýverið tvær kannabisræktanir sem karlmaður á fertugsaldri er grunaður um aðild að. Einnig var hald lagt á kannabisefni í pakkningum, sveppi, lyf, poka með hvítu efni og tvær skjaldbökur.

Lögreglumenn stöðvuðu í upphafi akstur mannsins og reyndist hann vera með útrunnin ökuréttindi. Hann var að auki eftirlýstur. Hann gaf þvagsýni á lögreglustöð sem staðfesti neyslu hans á amfetamíni, metamfetamíni og kannabis. Við leit í bifreið hans fannst meðal annars lítil vog með leifum af hvítu efni og kannabis.

Við húsleit í iðnaðarhúsnæði sem maðurinn hafði til umráða fannst kannabisræktun falin inni á milli nóta, kaðla og fiskineta. Á heimili hans fannst önnur kannabisræktun, kannabisefnin, sveppirnir, lyfin, hvíta efnið og skjaldbökunar. Meindýraeyðir frá Hafnarfjarðarbæ fjarlægði þær.

Loks fannst falskt rými undir ísskáp þar sem meðal annars voru tvær glerkrukkur með meintum amfetamínleifum, kannabismyljari og fíkniefnaáhöld.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann hringja nafnlaust til koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert