Rauði krossinn stendur vaktina yfir hátíðirnar

Konukot verður opið um jólin.
Konukot verður opið um jólin. mbl.is/Sigurgeir

Sjálfboðaliðar Rauða kross Íslands verða á vaktinni í ýmsum verkefnum yfir jólahátíðina. Rauði krossinn fylgist m.a. vel með jarðhræringum í norðanverðum Vatnajökli og eru viðbragðshópar um land allt á bakvakt, komi til neyðarástands. Það gildir auðvitað ekki aðeins um mögulegt eldgos, viðbragðshópar Rauða krossins bregðast við hvers kyns neyðarástandi – hvort sem það er vegna náttúruhamfara, ofsaveðurs, húsbruna eða samgönguslysa. 

Sjálfboðaliðar Hjálparsíma Rauða krossins 1717 verða einnig á sínum stað, allan sólarhringinn eins og venjulega. Því miður reynist hátíð ljóss og friðar mörgum erfið og það eru ekki allir sem finna fyrir gleðinni sem ætti að einkenna hátíð samveru og náungakærleika, segir í fréttatilkynningu frá RKÍ. Hjá Hjálparsíma Rauða krossins er hægt að fá ráðgjöf og sálrænan stuðning, sem og upplýsingar um samfélagsleg úrræði sem fólki stendur til boða, matarúthlutanir, ókeypis hádegisverði á þéttbýlisstöðum og opnunartíma athvarfa.

Konukot, athvarf Rauða krossins fyrir heimilislausar konur á höfuðborgarsvæðinu, er opið allan sólarhringinn frá Þorláksmessu til föstudagsins 26. desember. Dagana 26.–30. desember er venjulegur opnunartími (lokað frá 10:00-17:00), en svo opið allan sólarhringinn gamlársdag og nýársdag. Á aðfangadag er hátíðarkvöldverður og gestir fá gjafir frá velunnurum Konukots þar sem gamlar hefðir eru í hávegum hafðar því flíkur, bækur og konfekt leynast í pökkunum.

Sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi á alþjóðlegum vettvangi verða að störfum yfir jólin. Um þessar mundir eru það Elín Jakobína Oddsdóttir, hjúkrunarfræðingur í Suður-Súdan, Hlér Guðjónsson, upplýsingafulltrúi í Peking og Þór Daníelsson, yfirmaður sendinefndar Rauða krossins í Mongólíu. Þá er rétt að minnast á þær Mögnu Ólafsdóttur og Hólmfríði Garðarsdóttur sem starfa erlendis en fá kærkomið jólafrí á Íslandi. Þær eru báðar hjúkrunarfræðingar, Magna starfar í Genf við þjálfun heilbrigðisstarfsmanna sem berjast gegn útbreiðslu ebólu en Hólmfríður hefur starfað í Íran undanfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert