Skólakerfið geti ekki mismunað nemendum

Baldur Gíslason, fráfarandi skólameistari Tækniskólans
Baldur Gíslason, fráfarandi skólameistari Tækniskólans Ljósmynd/ Anna Fjóla Gísladóttir

180 nemendur útskrifuðust á frá dagskóla Tækniskólans og Tækniakademíunni við hátíðlega athöfn í Silfurbergi í Hörpu síðastliðinn laugardag.

Baldur Gíslason, fráfarandi skólameistari, var heiðraður við útskriftina, en hann lætur af störfum eftir 15 ár sem skólameistari, fyrst hjá Iðnskólanum í Reykjavík og Tækniskólanum frá árinum 2008. Í ræðu sinni gerði Baldur Hvítbók mennta- menningarmálaráðherra að umræðuefni sínu og gagnrýndi m.a. þær fyrirætlanir ráðherra „að úthýsa þeim sem eru eldri en 25 ára úr framhaldsskólunum,“ og sagðist telja að þar réðu skammtímasjónarmið för.

„Það er verið að færa menntun frá hinu opinbera skólakerfi til þess óopinbera. Færa það frá menntastofnunum yfir í námskeiðsmarkað. Það er sagt að þetta eigi ekki við um starfsnámið en ég er hræddur um að það sé bara fyrst í stað. Ég sé ekki að opinbera skólakerfið geti mismunað nemendum eldri en 25 ára eftir því í hvaða námi þeir eru,“ sagði Baldur.

Baldur sagðist ekki geta séð að slík mismunun sé rétta leiðin til að styrkja starfsmenntun í landinu. Sagði hann samfélagið þurfa að vinna með styrkleika fólks og að alltof oft velji ungt fólk sér menntaskóla útfrá meginstraumi jafnaldra og veldu í raun skóla frekar en nám.

„[Nemendurnir] eru nokkur ár í framhaldsskóla og svo háskóla en átta sig svo á því að þetta er eitthvað sem vinnur ekki með þeirra styrkleika. Koma þá og hefja nám í starfsmenntun og eru alsæl. Þetta er auðvitað ekki hagkvæmt fyrir þjóðina en nemandinn hefur fundið sinn styrkleika.“   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert