Fara í gegnum farm Dettifoss

Starfsmenn Eimskipa skoða staðinn þar sem gámar féllu útbyrðis af …
Starfsmenn Eimskipa skoða staðinn þar sem gámar féllu útbyrðis af Dettifossi. Skipið kom til hafnar í Reykjavík í kvöld. Árni Sæberg

Nú er staðfest að tuttugu gámar fóru fyrir borð á Dettifossi í aftakaveðri í gærkvöldi. Skipið lagði að Sundahöfn nú kl. 20 í kvöld og eru starfsmenn Eimskipa byrjaðir að fara í gegnum farmskrár til að finna út hvaða gámar fóru í sjóinn. Í kjölfarið verður haft samband við þá sem áttu farminn.

Að sögn Ólafs W. Hand, upplýsingafulltrúa Eimskipa, ætti að vera ljóst um miðnætti í kvöld hvaða gámar fóru í sjóinn. Strax hafi þó verið ljóst að engin eiturefni hafi farið útbyrðis. Líklegast hafi þar verið um að ræða dagvöru og vélarhlutir.

„Þetta eru tuttugu gámar og töluvert magna af vöru. Það er bara verið að fara í gegnum farmskrárnar og bera saman við gámana sem fóru útbyrðis. Menn fara hægt í að aflesta skipið. Það þarf að taka gámana sem eru lausir á dekki fyrst. Næst er farið að vinna í gámunum sem eru óskemmdir. Um leið og öryggiseftirlitið okkar gefur heimild til að menn geti farið að vinna með eðlilegum hætti í skipinu þá gera þeir það,“ segir Ólafur.

Ekki liggur fyrir hversu margir hafi orðið fyrir tjóni þegar gámarnir enduðu í votri gröf í Atlantshafinu norðvestur af Færeyjum í gærkvöldi. Í hverjum gámi geta verið mörg vörubretti, hvert frá sínum viðskiptavininum. Skipafélagið er tryggt fyrir slysum á skipum sínum en þar að auki segir Ólafur að flestir eigendur farmsins um borð séu með farmtryggingar.

Fyrri fréttir mbl.is:

Misstu fjölmarga gáma fyrir borð

Ekki ljóst hvað var í gámunum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert