Upplýsingar um hlerun „höfðu enga þýðingu“

Hæstiréttur felldi úr gildi ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur.
Hæstiréttur felldi úr gildi ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn

„Þessi forsenda í dóminum vekur upp ýmsar spurningar,“ segir Jónas Þór Guðmundsson, formaður Lögmannafélags Íslands, um nýfallinn dóm Hæstaréttar þar sem m.a. er tekin afstaða til hlerunar sérstaks saksóknara á símtölum sakbornings í Al-Thani málinu við verjanda sinn.

Í dómi Hæstaréttar frá 18. desember kom fram að upptökur af umræddum símtölum „myndu ekki koma á neinn hátt til álita þegar leyst yrði úr sakamálinu á hendur honum sem til meðferðar væri fyrir Hæstarétti og hefði því enga þýðingu að upplýsa frekar um framkvæmd þeirra“.

Símtölum ekki eytt eins og lög kveða á um

Fyrir lá í málinu að minnst fjögur símtöl milli varnaraðila og verjanda hefðu verið tekin upp fyrir mistök, en þeim ekki eytt þegar í stað eins og kveðið er á um í 1.mgr. 85.gr. laga nr 88/2008 um meðferð sakamála. Sú krafa varnaraðila að tiltekin vitni skyldu gefa skýrslu til að varpa ljósi á framkvæmd símahlerunarinnar var samþykkt í Héraðsdómi Reykjavíkur, en þá ákvörðun felldi Hæstiréttur úr gildi. 

„Um rannsókn mála og saksókn gildir svokölluð hlutlægnisregla sem felur í sér að þeir sem þessi störf annast skulu leitast við að leiða hið sanna í ljós og sýna hlutlægni í störfum sínum,“ segir Jónas.

„Sú spurning vaknar hvort það geti aldrei skipt máli í íslenskum rétti hvernig staðið er að rannsókn máls og hvort brotið er á grundvallarréttindum sakbornings að öðru leyti en því, að gögnin sjálf, sem þannig hefur beint verið aflað, komi ekki til álita við úrlausn málsins.“

Jónas segir að þá megi spyrja sig hvort afleiðingin af broti gegn umræddri hlutlægnisreglu og grundvallarréttindum geti ekki haft afdrifaríkari afleiðingar fyrir málatilbúnað ákæruvaldsins en lesa megi úr orðum Hæstaréttar.

Óbeinar upplýsingar gætu fengist úr símtölunum

Hann bendir á að dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu bendi til þess að ekki megi nota upplýsingar úr samtölum sakbornings og verjanda til að fella sök á sakborninginn. 

„Það er því ekki eingöngu samtal þeirra sjálft sem skiptir máli, heldur líka óbeinar upplýsingar sem kann að vera hægt að fá með því að hlusta á samtalið, sem geta nýst, til dæmis til þess að afla annarra sönnunargagna,“ segir Jónas.

Heildarmat þyrfti að fara fram

Hann segir dómstóla þurfa að framkvæma ákveðið heildarmat til að geta tekið afstöðu til þess hvort sönnunargagna hafi verið aflað á þennan hátt.

„Í því skyni getur verið réttlætanlegt að taka skýrslur af þeim sem rannsóknina framkvæmdu eða hafa vitneskju um hvernig hún fór fram. Hér vaknar sú spurning hvort í umræddri niðurstöðu Hæstaréttar felist að sakborningi hafi í þessu tilviki verið fyrirfram hafnað um að reyna að varpa ljósi á þetta atriði.“

Jónas segir dóminn ekki hafa verið ræddan í stjórn Lögmannafélagsins, en á hann von á að það verði gert eftir hátíðarnar.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 826/2014

Jónas Þór Guðmundsson, formaður Lögmannafélags Íslands
Jónas Þór Guðmundsson, formaður Lögmannafélags Íslands mbl.is
Símtölin voru tekin upp fyrir mistök
Símtölin voru tekin upp fyrir mistök mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert