Dómurinn samræmist alvarleika brotanna

Maðurinn var dæmdur í tíu ára fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands …
Maðurinn var dæmdur í tíu ára fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands Eystra mbl.is/Skapti

Tíu ára fangelsisdómur sem kveðinn var upp í kynferðisbrotamáli í Héraðsdómi Norðurlands eystra í síðustu viku er í fullu samræmi við alvarleika brotanna að mati Kolbrúnar Benediktsdóttur saksóknara og kennara í refsirétti við lagadeild Háskóla Íslands. Þannig skýri málsatvik þyngd refsingarinnar án þess að um einhverja sérstaka „stefnubreytingu“ í þyngd refsidóma í málaflokknum þurfi að vera að ræða.

Í málinu var karlmaður á fertugsaldri sakfelldur fyrir gróf kynferðisbrot gegn þroskahamlaðri konu og tveimur átta ára drengjum auk frelsissviptingar í skilningi 193.gr. og 1.mgr.226.gr. almennra hegningarlaga. Fram kemur í ákæru að hann hafi lokkað þroskahamlaða stúlku í íbúð sína undir því yfirskini að þar væri vinna við barnapössun í boði og brotið þar gróflega gegn henni. Þá hafi hann sagt drengjunum, báðum átta ára, að koma með sér inn í íbúð sína undir þeirri hótun að ella yrði lögregla kölluð til og framið síðan gróf kynferðisbrot gegn þeim.

Frelsissvipting vegur þungt

„Það eru ekki mörg mál þar sem reynir bæði á kynferðisbrot gegn börnum og frelsissviptingarákvæði. Þegar litið er til dóms Hæstaréttar í máli manns sem tók tvær ungar stelpur með sér í bíl upp í Hádegsimóa sést vel hve frelsissvipting vegur þungt,“ segir Kolbrún.

Í umræddu máli var brotamaðurinn Daði Freyr Kristjánsson dæmdur í þriggja ára fangelsi í maí, en hann tók tvær ungar stúlkur upp í bíl sinn í strætisvagnabiðskýli og ók með þær í útjaðar borgarinnar þar sem hann braut á þeim með því að kyssa aðra þeirra á kinnina og strjúka maga þeirra og rass utanklæða.

Hæstiréttur þyngdi dóminn

Þá bendir Kolbrún á að jafn þungir dómar hafi sést nýlega, en t.a.m. var Stefán Reynir Heimisson dæmdur í tíu ára fangelsi í Hæstarétti í júní fyrir að nema unga stúlku á brott og m.a. misnota hana kynferðislega og taka af henni myndir. Atvik voru þar um margt sambærileg og í málinu á Norðurlandi.

Í málinu þyngdi Hæstiréttur sjö ára dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um þrjú ár. Kolbrún segist ekki telja að rétturinn lækki almennt dóma í málaflokknum frekar en hitt, eins og stundum hefur verið haldið fram á samskiptamiðlum. „Án þess að ég hafi farið í einhverja rannsókn á því þá finnst mér tilhneigingin alls ekki hafa verið sú að Hæstiréttur mildi refsingar, hvorki almennt né sérstaklega í kynferðisbrotum. Frekar að refsing sé staðfest eða jafnvel þyngd eins og í ofangreindu máli,“ segir Kolbrún.

Fréttir mbl.is: 

Dæmdur í tíu ára fangelsi

Þriggja ára dómur staðfestur

10 ár fyrir brot gegn 10 ára stúlku

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og kennari í refsirétti við HÍ
Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og kennari í refsirétti við HÍ Ljósmynd/Kolbrún Benediktsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert