Telja niðurstöðu dómara ranga

Athugað hvort ökumenn séu ölvaðir.
Athugað hvort ökumenn séu ölvaðir. mbl.is/Júlíus

Hæstiréttur hefur ómerkt sýknudóm í ölvunarakstursmáli og vísað því aftur í hérað til aðalmeðferðar á nýjan leik. Ástæðan er sú að rétturinn taldi mat héraðsdómara á sönnunargildi framburða vitna svo rangt að það hafi skipt máli um úrslit málsins.

Í málinu var kona ákærð fyrir umferðarlagabrot í Reykjavík með því að hafa, laugardaginn 18. maí 2013, ekið bifreiðinni sinni undir áhrifum áfengis á bifreiðastæði við Kirkjutorg í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn.

Konan játaði fyrir dómi að hafa gangsett bifreiðina, en hélt því fram að það hefði ekki verið í þeim tilgangi að aka bifreiðinni heldur til að halda á sér hita. Bifreiðin hefði hins vegar runnið aftur á bak þegar hún gangsetti hana.

Fjórir lögreglumenn báru vitni fyrir dómi og segir í niðurstöðu héraðsdóms að ekki verði ráðið af framburði þeirra af hvaða orsök bifreiðin færðist til eftir að hún var gangsett. Vafa þar um beri að skýra konunni í hag.

Hæstiréttur rekur framburð lögreglumannanna í dómi sínum en einn þeirra bar um að hafa séð „bremsuljós, bakkljós, bremsuljós aftur þegar að hún stoppar þegar það er ekið aftan að henni“. Allir hafi þeir séð bakkljósin á bifreiðinni og að henni hafi verið ekið um einn metra afturábak.

„Þegar metinn er í heild framburður ákærðu og vætti lögreglumannanna fjögurra verður ekki dregin önnur ályktun af framburðinum en að líkur séu á að mat héraðsdómara á sönnunargildi hans sé rangt svo að máli skipti um málsúrslit,“ segir í dómnum og að sökum þess verði ekki hjá því komist að ómerkja dóminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert