„Þetta er hluti af málsvörninni“

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari
Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari mbl.is/Ómar Óskarsson

„Málið er rekið fyrir Hæstarétti núna og þetta er bara hluti af málinu,“ segir Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari um meint vanhæfi sérfróða meðdómsmannsins Magnúsar G. Benediktssonar í Al-Thani-málinu svokallaða. Endurskoðandinn Magnús sat í fjölskipuðum Héraðsdómi Reykjavíkur sem kvað upp dóm yfir þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni, Ólafi Ólafssyni og Magnúsi Guðmundssyni þann 12. Desember 2013. Ákærðu hlutu fangelsisdóma frá þremur árum og allt að fimm og hálfu.

Kaupþing átti kröfur í félögin

Í frétt mbl.is í gær kom fram að tvö fyrirtæki í nánum tengslum við Magnús hefðu verið tekin til gjaldþrotaskipta snemma árs 2013 og síðastliðið vor, en meðal krafna í félögin er kröfur sem upphaflega voru í eigu Kaupþings banka og SPRON. Fyrirtækin fóru illa út úr efnahagshruninu haustið 2008, en bæði vegna þess og þar sem sakarefni Al-Thani-málsins lýtur að viðskiptum Kaupþings banka hefur spurning verið sett við hæfi Magnúsar sem dómara í málinu.

„Við höfum auðvitað einhverja skoðun á þessu, en við látum hana bara uppi þegar dómurinn tekur málið til meðferðar,“ segir Ólafur.

Hann bendir á að hér sé einfaldlega um að ræða eina af kröfum verjenda í málinu og sé það því Hæstaréttar en ekki embættisins að taka afstöðu til hennar.

„Það var líka krafa um ákveðið vitnamál sem ekki náði fram að ganga, en svona gengur þetta bara fyrir sig. Erindið náttúrlega stafar frá verjendunum og það er stóri punkturinn í þessu, þetta er hluti af málsvörninni,“ segir Ólafur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert