Hallgrímur tekur við um áramótin

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða Af vef Bæjarins besta

Ákveðið hefur verið að Hallgrímur Kjartansson, sérfræðingur í heimilislækningum og núverandi framkvæmdastjóri lækninga og yfirlæknir á Patreksfirði, taki við nýju starfi framkvæmdastjóra lækninga við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða um áramótin. Þetta kemur fram á bb.is. Samhliða verður hann yfirlæknir heilsugæslunnar hjá stofnuninni frá sama tíma. Tvær umsóknir bárust um stöðu framkvæmdastjóra lækninga, frá Hallgrími og Þorsteini Jóhannessyni. Báðir umsækjendur voru metnir hæfir og raðaði stöðunefnd þeim. Á grundvelli meiri menntunar og vísindareynslu og víðtækari stjórnunarreynslu var Þorsteini raðað framar Hallgrími.

Þorsteinn hefur hins vegar ákveðið að draga umsókn sína til baka og verður hann áfram yfirlæknir á sjúkrasviði.

Í bréfi Þorsteins til framkvæmdastjóra HVEST gerir hann grein fyrir ákvörðun sinni:

,,Nú þegar niðurstaða stöðunefndar liggur fyrir, hvar ég var settur í 1. sæti af tveimur hæfum umsækjendum, vil ég koma eftirfarandi á framfæri: Starfi mínu, sem framkvæmdastjóri lækninga við HVEST frá stofnun, hefi ég sinnt með mikilli ánægju og af metnaði f.h. stofnunarinnar, en haft að leiðarljósi, að hún er fyrir íbúa svæðisins og hefur fyrst og síðast skyldur gagnvart þeim. Ekki þarf að fara í grafgötur með það, að álit HVEST hefur beðið hnekki í þeim hremmingum, sem átt hafa sér stað undangengið ár, en er nú væntanlega lokið. Á þessum tímamótum, þar sem þú hefur tvo hæfa umsækjendur um ofangreinda stöðu, vil ég tilkynna þér að ég óska ekki eftir ráðningu í starf framkvæmdastjóra lækninga og styð af heilum hug ráðningu Hallgríms Kjartanssonar til starfans. Ég mun áfram sinna mínu upprunalega starfi, sem ég var ráðinn til 1990, þ.e. yfirlæknir ,,Fjórðungssjúkrahússins“. Ég skal ekki láta mitt eftir liggja að halda áfram að byggja upp öflugri HVEST með nýjum stjórnendum og því ágæta fólki sem hér starfar,“ segir Þorsteinn Jóhannesson í bréfinu.

Ráðning framkvæmdastjóra hjúkrunar bíður fram yfir áramót. Umsækjendurnir verða boðaðir í viðtöl í janúar og stefnt er að ráðningu í kjölfar þeirra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert