Töluverð umferð við kirkjugarða

„Það er töluverð umferð í Fossvogskirkjugarði þar sem ég er staddur núna og mig grunar að það sé eins í öðrum kirkjugörðum, í Gufuneskirkjugarði, Hólavallagarði og í Kópavogi,“ segir Þorgeir Adamsson, garðyrkjustjóri yfir kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma.

Hann segir veður stillt og gott og þægilegt sé fyrir fólk að ferðast fótgangandi. Flestar leiðir séu vel sandaðar. Mikill snjór er yfir öllum görðunum að sögn Þorgeirs en aðalleiðir eru ruddar eða hálkuvarðar.

Hann segir leiðin þakin snjó og smástígar eru ófærir þegar fólk er komið út fyrir aðalleiðir.

„Það er mjög rólegt og gott yfirbragð í þessu stillta og fallega veðri hjá okkur,“ segir Þorgeir og bætir við að margir taki með sér litlar, hentugar skóflur til að moka ofan af minnismerkjum og luktum. Þá nýta margir skófluna við leit að leiðum.

Umferð í kirkjugarðana er mest á milli 12 og 14 að sögn Þorgeirs. Ljósmyndari mbl.is var staddur í Gufuneskirkjugarði fyrir skemmstu og var margt um manninn og biðröð bíla á svæðinu. Voru bílarnir það margir að á tímabili myndaðist mengun yfir garðinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert