Vön að halda jólin í skútu

Jay og Natasha búa ásamt börnum sínum í skútu
Jay og Natasha búa ásamt börnum sínum í skútu Kristinn Ingvarsson

Á meðan landsmenn keppast við að keyra út pakka og undirbúa málsvörð kvöldsins samkvæmt íslensku jólahefðinni er ein fjölskylda sem heldur upp á jólin á vægast sagt öðru vísi hátt en flestir landsmenn þekkja. Fjölskyldan, sem samanstendur af fimm fjölskyldumeðlimum, þeim Natasha og Jay og stelpunum þeirra þremur, Caribe, Luna og Sol, býr í skútu við Reykjavíkurhöfn.

Í samtali við blaðamann mbl.is segir Natasha  fjölskylduna hafa sofið út í dag, til klukkan 11. Meira að segja hafi stelpurnar sofið út, en slíkt gerist afar sjaldan, og telur Natasha myrkrið á Íslandi spila þar stóra rullu. Þau höfðu rétt lokið sér af við matarborðið þegar blaðamaður sló á þráðinn til hennar en Jay, sem er kokkur og afar laginn í eldhúsinu, hafði gert heimagerða kleinuhringi, brauð og Egg Benedict, sem er í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni. Þau eru ekki með eldavél og segir Natasha að Jay geti eldað nánast hvað sem er á pönnu. Hún segir hlýtt og notalegt í skútunni, arineldurinn í gangi og hitinn um 21 til 22 gráður.

Fjöldi fólks hefur komið með gjafir fyrir stúlkurnar og mat fyrir fjölskylduna og er Natasha þeim einstaklega þakklát og segir Íslendinga mjög almennilega og gjafmilda. Þá hefur sjómaður úr höfninni boðið fjölskyldunni með sér á jólaboð norska hersins á eftir og ætla þau að þiggja boðið. Jólatré fjölskyldunnar þetta árið er grein af grenitré, sem hengt hefur verið í mastrið, og bjuggu stelpurnar til jólaskraut og skreyttu greinina.

Á morgun, jóladag, fer fjölskyldan til annarrar fjölskyldu sem býr hér á landi tímabundið þar sem elduð verður önd og fagnað jólunum. Natasha segir fjölskylduna vana því að halda jólin hátíðleg um borð í skútunni en það hefur einungis einu sinni gerst undanfarin fimm ár að þau séu ekki um borð yfir jólin, það var fyrir þremur árum þegar þau héldu upp á jólin í strandhúsi ásamt fjölskyldu Jay.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert